Gæruhljómsveitir - Reykjavíkurdætur
Nú er undirbúningurinn fyrir tónlistarhátíðina Gæruna í fullum gangi og miðasala hafin á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki helgina 14. og 16. ágúst nk. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.
Reykjavíkurdætur verða á meðal þeirra hljómsveita sem stíga á stokk á Gærunni í ár.
Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Kraftmikið, hárbeitt rapp.
Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Við lendum mjög oft í tæknilegum örðugleikum. Það kemur gjarnan fyrir að við föttum í miðju lagi að við séum með vitlaust playback og þurfum að vinna í kringum það, og þegar við vorum að spila á samkomu hjá Kítón í sumar þá virkaði hljóðkerfið svo illa að við ákváðum að sleppa bara míkrafónum og gera þetta accapella. Við fengum áhorfendur til að mynda hring og svo stigum við inn í hringinn ein af annari og röppuðum okkar parta. Útkoman varð í raun betri en ef við hefðum gert þetta samkvæmt plani.
Hvað er á döfinni hjá ykkur? Við vorum að koma heim af Eistnaflugi og erum á fullu í allt sumar, meðal annars spilum við á Druslugöngunni, Innipúkanum, Gay Pride og Airwaves.
Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Við elskum að spila útá landi. Ferðalag með rappsystrunum er ávallt ávísun á fjör. Sauðárkrókur hér komum við!