Gæruhljómsveitir - Una Stef

Tónlistarhátíðin Gæran hefst annað kvöld með sólóistakvöldi á skemmtistaðnum Mælifelli og er miðasala í fullum gangi á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki föstudaginn 15. og laugardaginn 16. ágúst. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.

Una Stef verður á meðal þeirra tónlistarmanna sem stíga á stokk á Gærunni í ár.

Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Tónlistin er poppað R&B með alls konar funk gleði. Stuð og sál, það er kombóið sem tónlistin reynir að ná fram.

Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Hmm....maður lendir oft í alls konar skemmtilegu. Við erum stundum mjög mörg upp á sviði saman og höfum því troðið okkur upp á heimsins minnstu svið, stangað hvort annað með hljóðfærum, fengið snúrur í andlitið og hrunið. Ég blóta líka stundum alveg óvart í kynningum á milli laga...en uppáhalds atvikið sem ég man eftir akkúrat núna var off-venue á Airwaves í fyrra þegar asískur ferðamaður í eldri kantinum datt í það á barnum og söng með öllum power ballöðunum (án þess að kunna orð í textunum náttúrulega) og reif mig svo af sviðinu til að dansa. Þannig myndi ég helst vilja hafa öll gigg.

Hvað er á döfinni hjá ykkur? Núna erum við að fylgja eftir plötunni "Songbook" sem kom út í maí. Helgina áður en við komum norður förum við á austfirðina að spila, á Seyðisfjörð og þar í kring. Framundan er svo Iceland Airwaves og alls konar húllumhæ tónleikar og gleði fyrir það.

Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Við erum ótrúlega spennt og hlökkum til að rokka! Við verðum með brass sveitina okkur með okkur (þau eru líka í Bangoura Band) þannig við mætum með miklum krafti og til í að dansa og fönka á Króknum yndislega!

Fleiri fréttir