Gaf minningargjöf um Völu Mist

Lionsklúbburinn Björk á Sauðárkróki afhenti nýlega rausnarlega gjöf til sjúkraþjálfunar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands Sauðárkróki. Er hér um að ræða tvískiptan Gymna pro meðferðarbekk frá fyrirtækinu Fastus og er hann gefinn til minningar um Völu Mist Valsdóttur sem lést þann 24. nóvember síðastliðinn.
Fanney Ísold Karlsdóttir, yfirsjúkraþjálfari, segir bekkinn sérstaklega þægilegan í allri umgengni. Hann er á hjólum en hægt er að hafa hann í læstri stöðu og er með aðgengilegu rafdrifi svo gott er að hækka hann og lækka. „Þessi bekkur er gefinn inn í barnasjúkraþjálfun þar sem plássið er mjög lítið og því var valinn nettur bekkur sem er breiðastur um miðjuna og verður sérstaklega þægilegur fyrir litla skjólstæðinga okkar,“ segir Fanney. „Við viljum því þakka Lionsklúbbnum Björk fyrir höfðinglega gjöf og velvild í okkar garð og skjólstæðinga okkar.“ /FE
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.