Geggjað veður og brjálæðislega góð mæting

Knattspyrnuiðkendur – hressir og kátir við tiltektina. MYNDIR: DAVÍÐ MÁR
Knattspyrnuiðkendur – hressir og kátir við tiltektina. MYNDIR: DAVÍÐ MÁR

Umhverfisdagur Fisk Seafood og knattspyrnudeildar Tindastóls fór fram á Sauðárkróki í dag í björtu og stilltu veðri. Var rusl plokkað og tekið til frá klukkan tíu í morgun og stóð í fjóra tíma. Þátttaka tuðrusparkara og aðstandenda þeirra var „brjálæðislega góð“ eins og Feykir hafði eftir einum þátttakenda.

Svæðið frá Vegagerðarhúsinu í suðri að steinullarverksmiðjunni í norðri var hreinsað af miklum móð. Körum hafði verið komið fyrir á tiltektarsvæðinu og þá fengu þátttakendur í umhverfisdeginum afhenta ruslapoka í Vallarhúsinu þar sem mæting var skráð.

Í frétt í Feyki um miðjan apríl var sagt frá því að Fisk Seafood hefði ákveðið að styrkja knattspyrnudeild Tindastóls með því að bjóða öllum iðkendum yngri flokka félagsins merkta keppnisbúninga og upphitunartreyju þeim að kostaðnarlausu. Þar sagði ennfremur að í staðinn fyrir búningana óskaði FISK Seafood eftir því að fá Knattspyrnudeild Tindastóls með sér í umhverfisátak þar sem lögð yrði áhersla á að fegra nærumhverfið með því að tína rusl. Það er augljóst að þetta hafa knattspyrnuiðkendur kunnað vel að meta og létu fjölmargar hendur standa fram úr ermum í dag.

Davíð Már Sigurðsson, stoltur starfsmaður Fisk Seafood og fótboltanörd, mætti á svæðið og eftir að hafa tekið til hendinni sótti hann myndavélina heim og tók þessar myndir sem Feykir fékk að láni. Á Facebook-síðu skrifaði hann: „Umhverfisdagur Fisk Seafood kom mér heldur betur á óvart í dag. Mæting fótboltafólks Tindastóls og aðstandenda þeirra hlýtur að hafa farið fram úr björtustu vonum skipuleggjenda viðburðarins. Algerlega frábært framtak hjá fyrirtækinu, er stoltur af því að vera hluti af þessu.Vel gert Fisk Seafood & áfram Tindastóll!“

Sjón er sögu ríkari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir