Gengur fjárlagafrumvarpið of langt? Atvinnuleysi gæti tvöfaldast
Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti á fundi í gær að leita til Byggðastofnunar um að gera heildstæða úttekt á byggðaáhrifum fjárlagafrumvarpsins eins og það liggi fyrir. Telja margir nefndarmanna að frumvarpið gangi allt of langt gagnvart landsbyggðinni, hún þoli ekki boðaðan niðurskurð.
Fjárlagafrumvarp næsta árs er nú til daglegrar umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis og öðrum nefndum þingsins. Eins og fram hefur komið boðar frumvarpið gríðarlegan niðurskurð á sem flestum sviðum og óttast margir afleiðingar þess til lengri tíma, ekki síst áhrif þess á landsbyggðina. Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti í morgun tillögu Ásmundar Einars Daðasonar sem Kristján Þór Júlíusson bar upp um gerð verði heildstæð úttekt á byggðaáhrifum frumvarpsins.
Talað er um að fela Byggðastofnun verkið en nefndin mun nánar útfæra það á fundi sínum næstkomandi mánudag. Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja margir nefndarmenn í fjárlaganefnd að sú stefnubreyting sem boðuð sé í frumvarpinu verði alfarið dregin til baka. Landsbyggðin þoli ekki þann niðurskurð sem boðaður sé í frumvarpinu.
Hvað Norðurland vestra varðar þá má lauslega áætla að ef fjárlagafrumvarpið nái óbreytt fram að ganga þá gæti atvinnuleysi tvöfaldast á svæðinu.