Gerum betur – ný samfélagsstefna sjávarútvegsins

Íslenskur sjávarútvegur tekur hlutverk sitt alvarlega sem framleiðandi hágæða matvæla og ein af burðarstoðum efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar. Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa nú sameinast um stefnu í samfélagsábyrgð, sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Megináherslurnar lúta að umhverfismálum og nýsköpun.

Í tilkynningu frá SFS segir að ábyrg og góð umgengni um náttúruna sé skilyrði fyrir því að fiskistofnar við Ísland verði áfram nýttir með sjálfbærum hætti. Umhverfismál skipi af þeim sökum stóran þátt í stefnunni. Mikið hafi áunnist í þeim efnum á umliðnum árum, en markmiðið sé að gera enn betur.

„Aðilum sem nýta sjávarauðlindina er falin mikil ábyrgð. Af þeim sökum vilja fyrirtæki innan vébanda SFS einnig leggja sitt af mörkum til að efla traust á atvinnugreininni og auka gagnsæi. Fyrirtæki sem undirrita stefnuna hyggjast því birta ófjárhagslegar upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, þar sem stuðst er við alþjóðlega viðurkennd viðmið,“ segir í tilkynningunni en þar kemur einnig fram að stefnt sé að því að birta upplýsingar um skattspor, hvar skattar eru greiddir og viðskipti við tengda aðila.

 „Við hófum gerð samfélagsstefnu í fyrra og afraksturinn er kynntur núna. Við efndum til opinna funda og líflegra umræðna á meðal hagaðila sjávarútvegs, við héldum vinnustofu með stjórnendum fyrirtækja, við fórum umhverfis landið til að fjalla um og kynna samfélagsábyrgð fyrir félagsmönnum og fengum athugasemdir frá þeim og ábendingar. Þótt stefnan til framtíðar liggi fyrir, þá er vegferðin í raun að hefjast. Nú kemur það í hlut fyrirtækjanna að aðlaga starfsemina að stefnunni. Það þarf árvekni og reglubundna sjálfsskoðun í þeim efnum. En það hefur í gegnum árin sýnt sig að íslenskur sjávarútvegur er framsýnn, kvikur og sveigjanlegur. Ég á því ekki von á öðru en að þessi öflugu sjávarútvegsfyrirtæki okkar víðsvegar um landið muni taka verkefnið föstum tökum,“  segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir