Glæsilegur árangur UMSS í Gautaborg

Gautaborgarleikarnir í frjálsíþróttum, „Världsungdomsspelen 2014“, voru haldnir um helgina, 27.-29. júní á Ullevi-leikvanginum í Gautaborg. Samkvæmt vef Tindastóls er þetta eitt fjölmennasta mótið sem haldið er í Evrópu ár hvert og voru þátttakendurnir alls um 8.200. Ísland átti 110 keppendur á mótinu og þar af voru 30 Skagfirðingar.

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir frá UMSS náði glæsilegum árangri í hástökki á fyrsta degi mótsins þegar hún stökk 1,67m og setti nýtt skagfirskt héraðsmet í kvennaflokki. Þóranna keppti í flokki 18-19 ára stúlkna og varð í 5. sæti, en 3. sæti þeirra sem eru 18 ára.

Jóhann Björn Sigurbjörnsson frá UMSS varð í 2. sæti í bæði 100 m og 400 m hlaupum 18-19 ára drengja. Í 100 m hlaupinu hljóp hann á 10,78sek, en sá sem sigraði hljóp á 10,74sek. Í 400 m hlaupinu var tvöfaldur íslenskur sigur, Kolbeinn Höður Gunnarsson frá UFA sigraði á 48,58 sek og Jóhann Björn í 2. sæti á 49,22 sek. Í 200 m hlaupi 18-19 ára drengja lenti Jóhann Björn í 3. sæti.

Daníel Þórarinsson bætti sinn fyrri árangur og hljóp 100 m á 11,36 sek og 400 m á 50,84 sek, en fyrir átti hann 51,51 sek.

Ísak Óli Traustason komst í úrslit í 110 m grindahlaupi í flokki 18-19 ára og endaði í 7. sæti á 15,53sek, en hann náði sínum besta tíma, 15,28sek, í undanrásunum.

Hinir ungu og efnilegu unglingar í skagfirska hópnum náðu mjög góðum árangri og margir bættu sinn fyrri árangur. Öll úrslit mótsins má sjá hér.

Fleiri fréttir