Gleði og hamingja með að spila keppnisleik aftur

Baldur Þór fer yfir málin. MYND: HJALTI ÁRNA
Baldur Þór fer yfir málin. MYND: HJALTI ÁRNA

Það er óhætt að fullyrða að síðustu mánuðir hafa verið sérkennilegir fyrir alla. Þeir sem hafa nært sálartetrið á körfubolta í gegnum tíðina eru sennilega orðnir ansi daufir í dálkinn en nú horfir til betri tíma – körfuboltinn er farinn að skoppa og það er leikur gegn KR á fimmtudagskvöldið. Feykir tók púlsinn á Baldri Þór Ragnarssyni, þjálfara karlaliðs Tindastóls.

Hvernig leggst annað upphaf Dominos-deildarinnar í Tindastólsmenn? „Það leggst vel í okkur, menn sakna þess að spila leiki og erum við þakklátir fyrir að fá að byrja að spila aftur.“

Eru allir leikmenn klárir í slaginn og eru einhverjar breytingar á hópnum frá í haust? „Allir leikmenn eru heilir og klárir eins og staðan er í dag, vonandi helst það fram að leik. Við erum með sama lið og við byrjuðum leiktímabilið með.“

Hvernig hafa þessar vikur í kófpásu gengið fyrir sig, hvernig er að halda mönnum á tánum í svona ástandi? „Við erum með góðan hóp og menn eru einbeittir. Alltaf best að æfa saman en menn gera það besta með það sem þeir hafa í hvert skipti.“

Nú verður leikið þétt og væntanlega mikil ferðalög á liði Tindastóls. Reiknarðu með að þetta verði erfitt? „Það verður öðruvísi en þetta er þekkt frá öðrum löndum þannig ekkert nýtt fyrir erlendu leikmennina. Við hinir þekkjum þetta úr úrslitakeppninni þannig að það þarf að setja sig strax í playoffs gírinn.“

Annað sem setur strik í reikninginn er að engir áhorfendur verða á leikjum til að byrja með. Lið Tindastóls er vant því að fá góðan stuðning og oft talað um sjötta manninn í því sambandi. Hvernig líst þér á að leika fyrir tómum húsum? „Við verðum að búa til orkuna sjálfir í þetta skiptið, vonandi fá áhorfendur að koma sem fyrst.“

KR á fimmtudag í DHL-höllinni. Hverju megum við búast við? „Gleði og hamingju með að spila keppnisleik aftur. Svo bara beint í stál í stál þar sem ekkert er gefið eftir. Leikir við KR eru alltaf grjótharðir,“ segir Baldur Þór að lokum.

Leikurinn gegn KR fer fram í DHL-höllinni í Vesturbænum fyrir sunnan og hefst kl. 19:15. Verður hann væntanlega sýndur á KRtv en ljóst er að fyrstu tveir heimaleikir Tindastóls verða sýndir á Stöð2Sport en þá heimaleiki sem þeir Stöðvarkappar sýna ekki mun TindastóllTV sýna af brakandi snilld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir