Góður félagsskapur endurvakinn
Félag Sjálfsbjargar í Skagafirði boðar til fundar á morgun, fimmtudaginn 22. september. Ætlunin er að endurvekja þennan góða félagsskap sem legið hefur í dvala í nokkur ár.
Baráttumál félagsins eru margvísleg en öll miða þau að því að rétta hlut fólks með fötlun, að mannréttindi séu virt og að fordómar víki. Félag Sjálfsbjargar samanstendur af fólki sem býr við fötlun, aðstandendum þeirra og/eða fólki sem lætur sér annt um málstaðinn.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, nýkjörin formaður félagsins, býður gamla félaga velkomna og hvetur fólk til að koma og kynna sér starfsemi félagsins.
„Hvort sem við fæðumst með fötlun eða verðum fyrir henni á lífsleiðinni þá þýðir það ekki að við séum eitthvað minna virði. Við erum hluti af samfélaginu og viljum geta tekið fullan þátt í því sem það hefur upp á að bjóða. Hvað viljum við sjálf? Hvað brennur á að þurfi að breyta í okkar samfélagi?“ sagði Þuríður Harpa.
Vonast er til skapa líflegar umræður um málefni fatlaðra á fundinum og eru allir sem vilja kynna sér málstaðinn hvattir til að láta sjá sig. Ýmislegt er í deiglunni hjá Landssambandi Sjálfsbjargar sem einnig verður kynnt á fundinum.
Fundurinn verður haldinn á Kaffi Krók kl. 17.30 og verður heitt kaffi á könnunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.