Græn lína hjá Vilko
Í gær hóf Vilko framleiðslu á nýrri vörulína, sem fyrirtækið kallar græna línu. Um er að ræða tvær tegundir af hrökkbrauðsblöndu, og eins og aðrar vörur frá Vilko er um að ræða blöndu þar sem vatni er bætt út í og síðan bakað eftir einföldum leiðbeiningum. Fleiri vörur í grænu línunni eru væntanlegar á næstu mánuðum.
Feykir var á staðnum þegar fyrstu pakkarnir fóru í framleiðslu og fylgdist með allt frá því að vörunni var pakkað og þar til búið var baka eina blöndu. Óhætt er að mæla með þessari nýjustu afurð Vilko, en vörurnar í grænu línunni munu ekki innihalda neinn sykur og aðeins örlítið af salti. Uppistaðan í hrökkbrauðsblöndunni er speltmjöl og fræ. Aðeins fáeinar mínútur tekur að blanda hana með vatni og matarolíu og fletja út á bökunarplötu en bökunartíminn er um 20 mínútur.
Nánar verður sagt frá þessu og annarri framleiðslu Vilko í Feyki næsta fimmtudag.
