Grátlegt tap gegn Aftureldingu

Háloftabarátta á Sauðárkróksvelli. MYND: ÓAB
Háloftabarátta á Sauðárkróksvelli. MYND: ÓAB

Tindastóll og Afturelding mættust á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi í 2. deild karla í knattspyrnu. Nokkrar breytingar hafa orðið á liði Tindastóls síðustu daga og þrír nýjir leikmenn hófu leik í gær. Leikurinn var spennandi og hart tekist á en úrsltin réðust í uppbótartíma þegar gestirnir náðu að skora rándýrt mark og veita Stólunum slæmt högg. Lokatölur 2-3.

Aðstæður voru ágætar á Króknum í gærkvöldi, smá norðangarri og pínu napurt. Það kom þó ekki í veg fyrir að liðin sýndu á köflum ágætan leik. Augljóslega ætluðu Stólarnir að selja sig dýrt og spiluðu talsvert fastar en venjulega, létu Mosfellinga finna vel fyrir sér sem fór nett í pirrurnar á gestunum. Leikurinn var í ágætu jafnvægi í fyrri hálfleik en það voru Tindastólsmenn sem náðu forystunni á 30. mínútu með marki frá Ingva Hrannari eftir að nýr framherji liðsins, Greg Conrad, hafði skallað sendingu frá Arnóri Daða í varnarmenn Aftureldingar. Gestirnir náðu að jafna rétt fyrir hlé þegar Magnús Einarsson fékk laglega sendingu inn á teig þar sem hann var einn og óvaldaður. Brentton átti ekki séns. Staðan 1-1 í hálfleik.

Gestirnir voru með goluna í bakið í síðari hálfleik og þeir voru líklegri framan af. Á 64. mínútu komust þeir upp vinstri kantinn og áttu fína sendingu á fjærstöng þar sem Ágúst Leó Bjarnason sendi hörkuskalla í bláhornið. Stólarnir komu sér betur inn í leikinn á ný og á 79. mínútu jafnaði Fannar Örn Kolbeinsson með góðum skalla eftir aukaspyrnu af hægri kanti. Bæði lið reyndu að sækja sigur eftir þetta en leikurinn virtist stefna í jafntefli þegar fækkaði í liði gestanna eftir að sami leikmaður hafði tvívegis orðið fyrir höfuðmeiðslum á skömmum tíma og var hjálpað af velli. Í kjölfarið sofnuðu Stólarnir á verðinum og Afturelding átti ágæta sókn sem endaði með því að boltinn féll fyrir Ágúst Leó sem enn var óvaldaður á fjærstönginni og skilaði hann boltanum af öryggi í netið við mikil fagnaðarlæti Mosfellinga. Þetta gerðist á 94. mínútu og enginn tími fyrir Tindastólsmenn að bregðast við stöðunni.

Sem fyrr segir var pínu annar bragur á liði Tindastóls en undir stjórn Stephens Walmsley, en í gærkvöldi voru það Bjarki Már og Bjarni Smári sem stjórnuðu af bekknum í fjarveru Stefáns Arnars. Hart var barist og leikmenn Aftureldingar vildu fá ótal víti í leiknum og fengu nokkur móðursýkisköst í kjölfarið, en góðir dómarar leiksins létu ekki glepjast.

Greg Conrad lét finna vel fyrir sér, hann er stór og sterkur og spilar frammi, en Jack Clancy var á miðjunni með Konna og stóðu þeir sig með ágætum þrátt fyrir að þeir væru nýkomnir til liðsins. Þriðji útlendingurinn, Lundúnabúinn Jonathan Olaleye, kom ekki við sögu að þessu sinni. Eftir leiki gærkvöldsins eru Stólarnir enn í tíunda sæti og aðeins Fjallabyggð og Sindri fyrir neðan. Næst spila strákarnir á Grenivík en lið Magna er sem stendur í öðru sæti deildarinnar. 

Fleiri fréttir