Grease í Húnavallaskóla á morgun
Í Húnavallaskóla undirbúa börnin sig nú fyrir árshátíð sem verður haldin á morgun föstudaginn 28. nóvember. er nú í fullum gangi.
Mánudaginn 17. nóvember kom leikkonan Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir til okkar og markaði koma hennar upphaf undirbúningsins. Frá þeim degi hafa nemendur 10. bekkjar alfarið verið í hennar umsjá og verða það fram að árshátíð.
Settur verður upp söngleikurinn Grease í styttri útgáfu og er mikil eftirvænting bæði innan og utan skólans fyrir sýningunni. Þetta er í annað sinn sem Jóhanna Friðrika kemur til okkar og erum við henni mjög þakklát fyrir að aðstoða okkur við að koma upp sýningunni sem í er fjöldi sönglaga bæði einsöngslög og hópsöngvar. Söngleikurinn Grease hefur eins og flestir vita notið gríðar mikilla vinsælda til fjölda ára um allan heim. Ýmislegt fleira verður til skemmtunar og má þar nefna leik-, dans- og tónlistaratriði. Rétt er að geta þess að hið rómaða kaffihlaðborð verður að sjálfsögðu á sínum stað. Hátíðinni lýkur síðan með dansleik sem stendur til klukkan 01:00 og mun hin -fyrr en varir- landsfræga hljómsveit „Svartir sauðir“ halda uppi fjörinu. Þessa ágætu hljómsveit skipa fimm fyrrum nemendur Húnavallaskóla sem allir stunda framhaldsnám á Akureyri. Það er full ástæða til að benda fólki á að taka kvöldið frá og láta ekki frábæra skemmtun fram hjá sér fara.