Grunnskólar settir í Húnavatnssýslum
Grunnskólinn á Blönduósi var settur s.l. föstudag í Blönduóskirkju en hann hefur nú fengið nafnið Blönduskóli. Að þessu sinnu munu 122 nemendur stunda nám við skólann í vetur og er það svipaður fjöldi og síðustu ár.
Kennsla í 2.-10. bekk hefst samkvæmt stundaskrá í dag en nemendur í 1. bekk verða boðaðir til viðtals með forráðamönnum mánudaginn 23. ágúst og hefja nám samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 24. ágúst. Sex börn hefja nám í 1. bekk í vetur.
Höfðaskóli á Skagaströnd verður settur í dag kl. 11.00 í Hólaneskirkju. Að skólasetningu lokinni fara nemendur í skólann þar sem þeir hitta umsjónarkennarann sinn og fá námsgögn og stundaskrár. Nemendur 1. bekkkjar verða einnig boðaðir sérstaklega ásamt foreldrum. Allir velkomnir, sérstaklega foreldrar með börnum sínum.
Starfsmenn Grunnskóla Húnaþings vestra eru nú í óða önn að gera hreint og fínt fyrir foreldraviðtölin sem verða 24. og 25. ágúst. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 26. ágúst. Það má búast við ferðalögum fyrstu dagana en nánar verður farið yfir þau í viðtölunum. Foreldrum er bent á að kaupa íþróttaskó til iðkunar innanhúss fyrir nemendur þar sem nemendum er ekki lengur heimilt að vera berfætt eða í sokkum eingöngu í íþróttahúsum. Hafa skal í huga að kaupa skó sem ekki skilja eftir sig rákir eða svört strik.
Húnavallaskóli verður settur fimmtudaginn 26. ágúst klukkan 14.00. Allir vinir og velunnarar skólans eru velkomnir. Nemendur 2.-10. bekkjar mæta í skólann með skólabílum föstudaginn 27. ágúst klukkan 10.00 og fara heim klukkan 13.00. Nemendur 8. bekkjar verða í fermingarferðalagi með sóknarpresti sínum þessa viku í Vatnaskógi. Mánudaginn 30. ágúst mæta nemendur 2.-10. bekkjar klukkan 8.30 með skólabílum. Nemendur 1. bekkjar verða boðaðir sérstaklega af umsjónarkennara.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.