Guðbrandur og Grettla eignast 17 unga
Á vef Hólaskóla er skemmtilega frétt að finna af hænsnabúskap þeirra skötuhjúa Skúla rektors og Sólrúnar.
Guðbrandur hani býr þar með 10 hænum og í fréttinni kemur fram að Grettla, ein af hænunum 10, hafi lagst út og komið heim með hvorki fleiri né færri en 17 unga þremur vikum síðar. Þykja þetta góðar heimtur úr útungun hjá svo ungri hænu sem Grettla er. Þá segir í fréttinni að hrósa verði Guðbrandi einnig fyrir sitt framlag og má vissulega taka undir það.