Gul veðurviðvörun víðst á landinu
Gul viðvörun vegna veðurs er í gildi fyrir Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Strandir og Norðurland vestra, Austurland að Glettingi, Austfirði, Suðausturland og Miðhálendi en appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Vestfirði.
Veðurstofa Íslands gerir er ráð fyrir norðaustan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/s, fyrir spásvæði Stranda og Norðurlands vestra og hvassast norðantil. Búist er við talsverðri snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum á Ströndum og á annesjum.
Í athugasemdum veðurfræðings segir að allhvöss eða hvöss sunnanátt verði fram eftir degi, snjókoma með köflum norðvestantil, en víða skafrenningur norðanlands. Gengur í suðaustan og austan hvassviðri eða storm í nótt með snjókomu, slyddu eða rigningu.
Seint í dag á að draga úr vindi og ofankomu en frost verður frá 0 til 6 stiga. Vaxandi austlæg átt í nótt, 13-23 og snjókoma í fyrramálið, hvassast og úrkomumest á Ströndum. Dregur úr vindi og úrkomu á morgun, sunnan 3-10 og dálítil él síðdegis, en hvessir aftur og fer að snjóa á Ströndum annað kvöld. Hiti nálægt frostmarki.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Norðaustan hvassviðri eða stormur og snjókoma um landið norðvestanvert, en einnig norðaustanlands um kvöldið. Annars hægari suðvestlæg eða breytileg átt með skúrum eða éljum. Vægt frost, en hiti að 5 stigum við suðurströndina.
Á miðvikudag:
Norðaustan 8-15 og él, en úrkomulítið suðvestan- og vestanlands. Dregur úr vindi og éljum þegar líður á daginn. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag:
Fremur hæg vestlæg eða breytileg átt. Él á stöku stað, en annars bjart að mestu. Þykknar upp vestantil um kvöldið. Kalt í veðri.
Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með hlýnandi veðri og slyddu eða rigningu, fyrst vestantil, en úrkomulítið norðaustanlands. Snýst síðan í suðvestanátt með éljum og kólnandi veðri.