Gul viðvörun á Norðurlandi vestra

Veður fer nú versnandi víða um landið og eru gular og appesínugular viðvaranir í gildi fyrir stóran hluta landsins í dag og fram á nótt. Veðrinu veldur kröpp og óvenjudjúp lægð sem er á ferðinni suður og austur af landinu. Reiknað er með að hún valdi norðan- og norðaustan stormi eða roki og blindhríð fyrir norðan og austan og líklega einhverjum samgöngutruflunum, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Á Norðurlandi vestra er gul viðvörun í gildi í dag þar sem gert er ráð fyrir norðan hvassviðri eða stormi með hríðarveðri og jafnvel stórhríð um tíma á utanverðum Tröllaskaga. Draga mun úr vindi og úrkomu með kvöldinu. Hiti verður í kringum frostmark.
Veðurhorfur á landinu næstu daga eru þær að á morgun verði sunnan og suðvestan kaldi og slydda eða snjókoma með köflum en úrkomulaust að kalla norðaustan til. Hiti yfirleitt kringum frostmark að deginum. Á sunnudag verða norðvestan 8-13 m/s en hvassara í vindstrengjum um landið suðaustanvert. Dálítil él norðanlands, en birtir upp sunnan til. Hiti um frostmark. Lægir um kvöldið, syttir upp og kólnar. Á mánudaginn á svo að ganga í sunnan átt með rigningu en þurrt norðaustan til á landinu.Veður fer þá hlýnandi en kólnar aftur á þriðjudag.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að í dag sé stórstreymt og þegar við bætist mjög lágur loftþrýstingur og hvass vindur geti sjór gengið á land og valdi tjóni. Menn eru því hvattir til að tryggja vel báta sína og vörur og tæki við sjávarsíðuna.
Færð hefur ekki spillst á Norðurlandi vestra utan þess að Siglufjarðarvegur er lokaður vegna óveðurs. Á vef Vegagerðarinnar má sjá að á flestum leiðum er hálka eða hálkublettir en stórhríð er á Öxnadalsheiði og mjög blint. Þá er einnig stórhríðarmerki á Þverárfjalli og á veginum milli Hofsóss og Fljóta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.