Halla Signý og Stefán Vagn bítast um 2. sætið á lista Framsóknar

Halla Signý og Stefán Vagn.
Halla Signý og Stefán Vagn.

Það verða Alþingiskosningar á næsta ári og stjórnmálamenn sem legið hafa undir feldi og íhugað framboð stíga nú fram í ljósið með hækkandi sól og kynna sín plön. Útlit er fyrir spennandi kosningu hjá framsóknarmönnum í Norðvesturkjördæmi en í gær tilkynntu bæði Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður, og Stefán Vagn Stefánsson, varaþingmaður, að þau muni sækjast eftir öðru sæti á lista Framsóknarflokksins.

Þetta þýðir þá væntanlega að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, geti gengið að efsta sæti listans vísu. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgfirðingur og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna, hefur þegar gefið kost á sér í þriðja sæti. Friðrik Már Sigurðsson úr Húnaþingi vestra býður sig fram í 3.-4. sæti og þá hefur Gunnar Ásgrímsson í Skagafirði boðið sig fram í 5. sætið. Hægt er að fylgjast með framboðsmálum Framsóknar á Facebook

Valið verður á listann í póstkosningu sem fram fer frá 1. til 26. febrúar nk. en þeir sem hyggjast taka þátt í kosningunni þurfa að vera skráðir í Framsóknarflokkinn fyrir 2. janúar 2021.

 - - - - - -

Halla Signý er fædd á Flateyri en býr í Bolungarvík. Hún hefur setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn síðan 2017 en Halla skipaði annað sæti listans fyrir síðustu kosningar. Hún sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu í gær:

„Ég hef ákveðið að gefa áframhaldandi kost á mér í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. 

Með reynslu, þekkingu og þau verkefni sem ég hef unnið að á yfirstandandi kjörtímabili býð ég fram krafta mína til næstu fjögurra ára. Ég hef fengið tækifæri að vinna með samheldnum hópi þingflokks Framsóknarmanna sem leggur sig allan fram að leiða verkefnin áfram með samvinnu og festu. Mörg þeirra verkefna sem við löguðum upp með í upphafi kjörtímabils höfum við náð fram þrátt fyrir frá COVID 19 

Í Norðvesturkjördæmi fer fram póstkosning og munu valdagar standa frá 1. febrúar til og með 26. febrúar 2021. Þeir sem vilja taka þátt í því vali verða að vera skráðir í Framsóknarflokkinn fyrir 2. janúar nk. 

Hægt er að skrá sig í flokkinn á heimasíðu Framsóknarflokksins. Þeir sem vilja styðja mig á lista flokksins og vilja ganga í flokkinn er velkomið að hafa samband við mig í einkaskilaboðum og ég get leiðbeint við að það.“

 - - - - -

Stefán Vagn er Skagfirðingur í húð og hár. Hann býr á Sauðárkróki og starfar sem yfirlögregluþjónn auk þess að hafa verið á kafi í sveitarstjórnarmálum en Stefán hefur verið oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði síðan árið 2010 og gegnt fjölmörgum ábyrgðarstöðum. Hann tók við sem forseti sveitarstjórnar í sumar eftir að hafa verið formaður byggðarráðs í tíu ár. Stefán Vagn sendi eftirfarandi yfirlýsingu frá sér í gær:

„Kæru vinir.

Ég hef tekið ákvörðun um að gefa kost á mér í annað sætið á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

Frá árinu 2010 hef ég verið oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði þar sem við höfum verið í meirihluta frá árinu 2006. Á þeim tíma hef ég einnig gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Fyrir síðustu Alþingiskosningar skipaði ég þriðja sæti á lista Framsóknarflokkins í Norðvesturkjördæmi og hef því verið varaþingmaður frá árinu 2017. Hefur þessi tími verið mjög gefandi og lærdómsríkur.

Í störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður og varaþingmaður hef ég snert á mörgum hagsmunamálum landsbyggðarinnar enda eru þau mál mér afar hugleikin. Þar er áfram verk að vinna.

Póstkosning félagsmanna um hvernig framboðslistinn verður skipaður mun fara fram í febrúar og hafa þeir þátttökurétt sem skráðir eru í Framsóknarflokkinn fyrir 2. janúar 2021. Þeir sem hafa áhuga á að styðja mig í þessu verkefni og eru ekki skráðir í flokkinn geta skráð sig á framsokn.is eða haft samband við mig og ég mun aðstoða við skráningu.

Ég hlakka til að takast á við og fylgja eftir fjölmörgum brýnum hagsmunamálum íbúa Norðvesturkjördæmis og landsbyggðarinnar allrar. Með öflugri baráttu og samvinnu flokksmanna getum við tryggt að Framsóknarflokkurinn verði leiðandi afl í kjördæminu og hafi styrk til að vinna að framgangi mikilvægra mála, landi og þjóð til heilla.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir