Háskólinn á Hólum hlýtur styrk úr Byggðarannsóknasjóði
Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var á Siglufirði þann 11. apríl sl. var kynnt hvaða verkefni fengju styrk úr Byggðarannsóknasjóði að þessu sinni. Verkefnin þrjú sem hlutu styrk eru rannsóknir sem lúta að minjavernd og ferðaþjónustu, landbúnaði og búsetuskilyrðum. Frá þessu er sagt á vef Byggðastofnunar.
Háskólinn á Hólum fékk hæsta styrkinn að upphæð 3,5 milljónir króna til rannsóknar um nytja- og minjagildi torfhúsa. Markmið rannsóknarinnar er að kanna viðhorf landsmanna og ferðamanna til þess minjaarfs sem felst í torfhúsum. Einnig á að skrá, staðsetja og lýsa þessum menningarminjum og skoða hvaða sess torfhús hafa varðandi ferðaþjónustu og minjavernd. Afraksturinn mun nýtast til stefnumótunar í minjavörslu og til jákvæðrar byggðaþróunar. Á vef Háskólans á Hólum segir að fyrsti áfangi rannsóknarinnar muni hefjast í sumar og verði Rannsóknamiðstöð ferðamála, Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafn Skagfirðinga samstarfsaðilar með Ferðamáladeildinni. Fleiri muni bætast í hóp rannsakenda í framhaldinu. Tveir af starfsmönnum Ferðamáladeildar, þær Sigríður Sigurðardóttir aðjúnkt og Laufey Haraldsdóttir deildarstjóri, hafa umsjón með rannsókninni fyrir hönd skólans.
Aðrir styrkhafar Byggðarannsóknasjóðs voru Landbúnaðarháskóli Íslands sem hlaut þriggja milljón króna styrk til verkefnisins Betri búskapur - bættur þjóðarhagur og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fékk 2,4 milljónir til verkefnis sem ber heitið Sínum augum lítur hver á silfrið: Búsetuskilyrði og blæbrigði þeirra.
Byggðarannsóknasjóður var stofnaður haustið 2014 og er fjármagnaður af fjárlagalið byggðaáætlunar og með framlagi frá Byggðastofnun. Auglýst var eftir umsóknum í sjóðinn 2. febrúar og umsóknarfrestur rann út þann 14. mars. Sex umsóknir bárust, samtals að upphæð rúmar 17,1 milljón króna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.