Háskólinn á Hólum og Hjaltadalur ferðaþjónusta ehf. í samstarf

Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, og Gústaf Gústafsson,
framkvæmdastjóri Hjaltadals ferðaþjónustu ehf., olnboga nýja samkomulagið. Hólaskógur í bakgrunni. Aðsend mynd.
Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, og Gústaf Gústafsson, framkvæmdastjóri Hjaltadals ferðaþjónustu ehf., olnboga nýja samkomulagið. Hólaskógur í bakgrunni. Aðsend mynd.

Háskólinn á Hólum og Hjaltadalur ferðaþjónusta ehf. gerðu nýverið samning til þriggja ára um rekstur mötuneytis háskólans, veitingastaðarins Kaffi Hóla og gestamóttöku og gistisölu á Hólum. Verið er að þróa spennandi dekurhelgar yfir vetrarmánuðina og villibráðar- og jólahlaðborð eru í deiglunni.

,,Markmið Hjaltadals ferðaþjónustu ehf. er að starfrækja ábyrga veitinga- og gistisölu. Í því sambandi leggjum við meðal annars ríka áherslu á aðkomu heimamanna að ákvarðanatöku, notum hráefni úr héraði sé þess nokkur kostur og að reksturinn skapi tækifæri hér á svæðinu. Fyrirtækið hóf starfsemi sína í miðri fyrstu bylgju Covid. Okkar ætlun var að tryggja þjónustu í þeirri óvissu sem þá ríkti og gerir raunar enn. Samstarfi hefur verið farsælt og þróast með þeim hætti að báðir aðilar telja þjónustunni best borgið í þeim farvegi sem hefur myndast á undanförnum mánuðum. Auðvitað er þetta ástand mjög skringilegt, en við erum bjartsýn og vongóð um framhaldið,” segir Gústaf Gústafsson, framkvæmdastjóri Hjaltadals ferðaþjónustu ehf.

„Háskólinn á Hólum er miðstöð fyrir kennslu og rannsóknir í hestafræðum, fiskeldi- og fiskalíffræði, viðburðastjórnun og ferðaþjónustu í dreifbýli. Hér er rekin öflug ferðamáladeild sem meðal annars þjálfar verðandi stjórnendur og leiðtoga í greininni. Það er dýrmætt að rekstur ferðaþjónustu á Hólum beri háskólanum og staðnum fagurt vitni. Við bindum miklar vonir við það samkomulag sem við nú undirrituðum varðandi ábyrga ferðaþjónustu og ríka þjónustulaun í anda upplifunar sumarsins,” segir Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.

Villibráð og dekurhelgar einkenna næstu mánuði
Gústaf segist finna fyrir jákvæðum viðbrögðum víða og nefnir að til að mynda hafi verið óskað eftir því að haldin verði villibráðar- og jólahlaðborð á Hólum. Hann segir að verið sé að þróa spennandi dekurhelgar yfir vetrarmánuðina. „Þar nýtum við þann auð sem býr í héraði og útkoman er einstök að mínu viti. Til dæmis erum við í samstarfi við Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup, sem býður upp á hjónabandsráðgjöf fyrir þá sem vilja. Auk þess erum við með matarnámskeið þar sem matreiðslumeistarar kenna gestum á villibráð, þá er línudans, gönguferðir með leiðsögn, bjórkynning frá hinu víðfræga Bjórsetri Íslands svo eitthvað sé nefnt. Það er reyndar alveg ótrúlega margt spennandi í gangi hérna,” segir Gústaf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir