Heimsóknir leyfðar aftur á HSN eftir 4. maí
Heimsóknir verða leyfðar á hjúkrunardeildir HSN á Sauðárkróki og hjúkrunar- og sjúkradeild HSN á Blönduósi frá og með næstkomandi mánudegi, 4. maí, þó með ákveðnum takmörkunum. Í tilkynningu til aðstandenda á heimasíðu stofnunarinnar segir að þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 sé enn full þörf á að sýna ítrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Þá er einnig nauðsynlegt að takmarka þann fjölda sem kemur inn í heimilið á hverjum tíma. Vonir eru bundnar við að heimsóknir verði rýmkaðar enn frekar í júní 2020.
Heimsóknir eru skipulagðar í samráði við deildarstjóra á hverri deild en ekki skal panta heimsóknartíma ef:
- Viðkomandi er í sóttkví
- Viðkomandi er í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku
- Viðkomandi hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
- Viðkomandi er með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
Nánara fyrirkomulag og upplýsingar varðandi heimsóknir má finna á undirsíðum starfsstöðvanna á Blönduósi og á Sauðárkróki.