Heldur meiri laxveiði í Húnavatnssýslum í ár en í fyrra

Skemmtileg mynd af veiðimönnum að leita að laxi í Miðfjarðará. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU MIÐFJARÐARÁR LODGE
Skemmtileg mynd af veiðimönnum að leita að laxi í Miðfjarðará. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU MIÐFJARÐARÁR LODGE

Á Húnahorninu var rennt yfir gang mála í laxveiðiám í Húnavatnssýslum nú fyrir helgi og ku Miðfjarðará vera aflahæst laxveiðiáa þar það sem af er sumri. Þar hafa veiðst 109 laxar en næst þar á eftir kemur Blanda með 75 laxa. Víðidalsá á var með 63 laxa og svo Laxá á Ásum með 60 laxa en veiðst hafa 32 laxar úr Vatnsdalsá og átta úr Hrútafjarðará.

Samtals eru þetta 347 laxar en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 294 laxar. Þá höfðu veiðst 110 laxar í Miðfjarðará, 64 í Blöndu, 32 í Víðidalsá, 45 í Laxá á Ásum, 35 í Vatnsdalsá og átta í Hrútafjarðará. Þetta er samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga sem birtar eru á vefnum angling.is.

Urriðafoss í Þjórsá er aflahæsta laxveiðiáin á landinu sem af er sumri er með 451 lax á fjórar stangir. Í öðru sæti er Þverá-Kjarrá með 381 lax á 14 stangir, þá Norðurá með 338 laxa á 12 stangir og svo Ytri Rangá með 207 laxa á 16 stangir.

Það ætti að kæta veiðimenn að veiði sé heldur að glæðast eftir frekar mögur síðustu ár en veiðitölur hafa verið á stöðugri niðurleið. Veiði í Blöndu í fyrra var til dæmis aðeins um 10% af því sem hún var sumarið 2015 sem var reyndar algjört toppár hvað varðaði veiði þar.

Veiðiþyrstir geta m.a. kíkt á fréttir á vefnum Veiðifréttir.com en þar má sjá að flestar fréttir eru í jákvæðari kantinum – þó frekar fyrir veiðimenn en laxinn. Samkvæmt upplýsingum Feykis bíða veiðimenn nú spenntir eftir væntanlegum stórstraumi en þá horfa menn til þess að árnar fyllist af smálaxi og enn meira líf færist í veiðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir