Helga Rós Indriðadóttir og Skagfirski kammerkórinn ráðast í metnaðarfullt stórvirki

Helga Rós Indriðadóttir. Myndin er tekin í Stefánsstofu í Miðgarði. Myndir:FE
Helga Rós Indriðadóttir. Myndin er tekin í Stefánsstofu í Miðgarði. Myndir:FE

Skagfirski kammerkórinn stendur í stórræðum þessa dagana en nú standa yfir hjá kórnum æfingar á verkinu Magnificat eftir breska tónskáldið John Rutter. Verkið er hluti af afmælisdagskrá sem fengið hefur heitið Í takt við tímann og er sett upp í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Dagskráin er tvískipt og er hinn hluti tónleikanna helgaður íslenska einsöngslaginu. Hefur kórinn fengið í lið með sér félaga úr Kammerkór Norðurlands, Kalman listfélag á Akranesi ásamt Sinfóníettu Vesturlands og Guðmund Óla Gunnarsson sem stjórnar hljómsveit og kór ásamt því að útsetja einsöngslögin sem flutt verða af tenórnum Kolbeini Jóni Ketilssyni og sópransöngkonunni Helgu Rós Indriðadóttur sem jafnframt er stjórnandi Kammerkórsins.

Skagfirski kammerkórinnvar stofnaður á þrettánda degi jóla þann 6. janúar árið 2000 og var það að frumkvæði Sveins Arnars Sæmundssonar, organista og kórstjóra, ásamt nokkrum félögum sem sungið höfðu hjá honum í kirkjukórum Miklabæjarprestakalls. Sigríður Sigurðardóttir, ein af stofnfélögum kórsins, segir að markmið kórsins frá upphafi hafi verið að auðga tónlistarvitund kórfélaga og annarra þeirra sem hefðu áhuga á að heyra fallega tónlist flutta við hin ýmsu tækifæri.  Sveinn Arnar stýrði kórnum til ársins 2002, þá tók Páll Barna Szabó við til ársins 2004, Jóhanna Marín Óskarsdóttir var stjórnandi árin 2005 til 2012 og frá árinu 2013 hefur Helga Rós Indriðadóttir stýrt kórnum.  

Þó starfsaldur kórsins sé ekki lengri hefur hann haldið á annað hundrað tónleika á starfstíma sínum og sungið víða um landið ásamt því að syngja í Götukirkju og í Kirkjubæjarkirkju í Færeyjum, en það er eina utanlandsferðin sem kórinn hefur farið í. Fastir liðir í starfi kórsins eru jólatónleikar í Hóladómkirkju og vortónleikar sem haldnir hafa verið hér og hvar í Skagafirði. Þá hefur kórinn, frá árinu 2007, staðið fyrir dagskrá á Löngumýri á Degi íslenskrar tungu, ásamt 7. bekkingum í Varmahlíðarskóla, þar sem kynnt hafa verið hin ýmsu skáld, lesin upp ljóð og sögur og sungin lög við ljóð þeirra. Sönghópur eldri borgara hefur oft tekið þátt í þeirri dagskrá, sem hefur alltaf verið einstaklega vel heppnuð. 

Gullfallegt verk með sól og suðrænum takti

Það hlýtur að teljast býsna metnaðarfullt verkefni hjá ekki stærri kór að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu. Feykir hitti Helgu Rós Indriðadóttur, stjórnanda kórsins, að máli og ræddi við hana umtónlistarferilinn, kórstarfið og tilurð þessa verkefnis.

Frá æfingu kóranna í Miðgarði.

Helga Rós á að baki glæsilegan feril á tónlistarbrautinni. Hún er fædd og uppalin á Hvíteyrum í Lýtingsstaðahreppi hinum forna en hleypti ung heimdraganum. Eftir framhaldsskólanám á Akranesi, þar sem hún hóf sitt söngnám, stundaði hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með tónmenntakennarapróf og síðar einsöngvarapróf og söngkennarapróf. Þaðan lá leiðin í óperudeild háskólans í Stuttgart í Þýskalandi og eftir tveggja ára nám var hún komin á samning við óperuna þar í borg. Þar var Helga fastráðin í átta ár og segist hafa tekist á við mjög fjölbreytt og skemmtileg en jafnframt krefjandi hlutverk.

Síðan Helga flutti aftur á heimaslóðirnar í Skagafirði hefur hún fengist við píanó- og söngkennslu ásamt kórstjórn en hún stjórnaði Karlakórnum Heimi í tvö ár og er nú stjórnandi Kvennakórsins Sóldísar og Skagfirska kammerkórsins. Árið 2014 tókst Helga á við sitt fyrsta óperuhlutverk á Íslandi þegar hún söng hlutverk Elísabetar í Don Carlo eftir Verdi í Hörpu.

Frá æfingu í Miðgarði. Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi og Helga Rós Indriðadóttir.

Helga segir að Skagfirski kammerkórinn hafi í gegnum tíðina haft á efnisskrá sinni falleg íslensk og erlend lög, án undirleiks. „Svo var alltaf verið að ræða það að takast á við eitthvað meira og ég skellti á þau stuttri og fallegri messu eftir Stefán Arason, sem er án undirleiks, mjög fallegt verk en ekki langt þar sem reyndi virkilega á tónheyrnina. Þannig að ég hugsaði með mér að það mætti nú leggja þó nokkuð á þau og þau væru tilbúin í slaginn. En það er flókið að gera þetta, þegar þú ert að velja verk og ætlar að fá hljómsveit þá skiptir náttúrulega máli hvernig tónskáldið hefur samið, hvaða hljóðfærasamsetningu það hefur sett í verkið, því það er kannski ekki alveg á okkar færi að fá 40 manna hljómsveit til að spila svo verkefnavalið réðist svolítið af því líka. Auðvitað hefði okkur helst langað til að gera verk eins og til dæmis Requim eftir Mozart en þar er bara of mikið af málmblásurum og hljómsveitin of stór og mjög flókið að ætla að fara að útsetja fyrir minni hljómsveit,“ segir Helga.

 „Ég leitaði til okkar samstarfsaðila sem er Guðmundur Óli Gunnarsson. Hann stakk upp á að ég skoðaði hvað John Rutter hefði verið að gera, breskt tónskáld sem er á lífi enn, rúmlega sjötugur. Rutter var svo skynsamur að hann útsetti verkin sín bæði fyrir stóra hljómsveit og einnig minni. Það er náttúrulega mjög sniðugt að gera það upp á að verkin séu flutt víðar og við aðrar aðstæður heldur en með stórri hljómsveit. Ég fór að hlusta á það sem hann hafði gert og þetta verk var með sóló fyrir sópran, ég þurfti nú auðvitað að koma mér að,“ segir Helga hlæjandi, „en án gríns þá er mikilvægt fyrir mig líka að takast á við krefjandi einsöngshlutverk en verkið er alveg gullfallegt og bara yfirleitt allt sem hann semur. Þetta eru mjög fallegar og grípandi laglínur og svo er mjög skemmtilegur taktur í sumum köflunum. Þetta er við lofsöng Maríu og þegar maður fer að kynna sér betur hvað höfundurinn hefði verið að hugsa þá er hann að spá í hvernig tónlistarhefðin er í löndunum þar sem kaþólska trúin er sterkust. Það eru auðvitað þessi spænskumælandi lönd eins og Spánn og Mexíkó og lönd í Suður-Ameríku svo við fáum að heyra mexíkanskan huapango danstakt eða eins og hann segir þá þarf næstum því að syngja þetta með smá mjaðmasveiflu. Hann segir líka einhvers staðar að honum fyndist alveg við hæfi að hann, þessi Norður-Evrópubúi sem er að semja í þoku og súld á Bretlandi, reyndi að taka svolítið af þessari suðrænu sól inn í verkið til sín. Og ég hugsaði með mér að þetta hentaði okkur bara alveg ágætlega sem erum náttúrulega hérna á norðurhjara, að fá svolitla sól og suðræna birtu inn í það sem við værum að takast á við.“ 

Mikil áskorun fyrir alla

Frá æfingu kóranna í Miðgarði.

Æfingar á verkinu hófust í fyrrahaust, í september, meðfram öðrum föstum liðum sem eru á dagskrá kórsins. Í vor hafði kórinn opna æfingu á verkinu í Miðgarði og í haust hafa svo verið mjög þéttar æfingar. Helga segir að kórinn muni væntanlega telja um 40 manns þegar samstarfsaðilarnir úr Kammerkór Norðurlands hafi bæst við. Hljómsveitina, sem Guðmundur Óli hefur sett saman, skipa svo 15 manns.„Svo erum við svo heppin að hafa hann Thomas Higgerson sem hefur spilað á æfingunum með okkur,“ bætir Helga við.

Helga segir að sér þyki alveg stórkostlegt hvað kórfólkið sé tilbúið að leggja á sig. „Sumir kunna engar nótur og læra þetta mest eftir eyranu á æfingunum. Þau undirbúa sig mjög mikið heima þannig að þau eru að taka mjög mikinn tíma í þetta. Og svo erum við líka að æfa um helgar, við erum t.d. með æfingu daginn eftir Laufskálarétt, þá er sameiginleg æfing með Kammerkór Norðurlands þannig að það er alveg heill sunnudagur og svo er helgin sem tónleikarnir verða haldnir alveg undirlögð, föstudagskvöldið, allur laugardagurinn og sunnudagurinn fram að tónleikunum. En þeim finnst þetta gaman, að takast á við nýtt og krefjandi verkefni, og það þykir mér líka. Það er rosalega gaman þegar þetta er allt að smella saman. Verkið er á latínu og þetta er oft mjög erfitt í takti þannig að þetta er mikil áskorun fyrir okkur öll,“ segir Helga og það er auðheyrt að hún er hreykin af hópnum sínum.

Frá æfingu kóranna í Miðgarði.

Tónleikarnir verða tvískiptir, fyrir hlé verða flutt íslensk einsöngslög og dúettar, útsett fyrir undirleik hljómsveitarinnar. „Þar fengum við til liðs við okkur Kolbein Jón Ketilsson, tenórsöngvara, þannig að við verðum þar tvö,“ segir Helga. „Kolbeinn, sem býr í Noregi, er einn af okkar fremstu tenórsöngvurum, þó hann hafi ekki verið áberandi hérna upp á síðkastið en það er gaman að fá að heyra í honum. Við völdum falleg íslensk lög, samin á síðustu 100 árum. Við erum til dæmis með Sólsetursljóð eftir Bjarna Þorsteinsson og einn dúett úr Galdra-Lofti eftir Jón Ásgeirsson. Svo eru líka þekkt lög eftir Sigvalda Kaldalóns, Jórunni Viðar, Emil Thoroddsen og ekki má gleyma lögum eftir Eyþór Stefánsson og Pétur Sigurðsson, okkar skagfirsku tónskáld. Lögin eru útsett sérstaklega fyrir þennan viðburð, þessa hljóðfæraskipan, þannig að það það mun breyta upplifun okkar af þeim sem eigum því að venjast að heyra þau með píanóundirleik og það er mjög spennandi. Eftir hlé flytjum við svo Magnificat sem er í sjö köflum, grípandi, fallegt og aðgengilegt verk með sól og birtu og suðrænum takti. Verkefnið fékk styrk úr fullveldissjóði og þetta er eitt af stærri verkefnunum hér norðanlands. Það má segja að þetta sé dæmi um hvað íslenskt kórafólk er að fást við núna miðað við hvernig íslenskt tónlistarlíf var statt fyrir 100 árum síðan.

En hvaða gildi hefur það fyrir verkefnið að hafa fengið styrk úr fullveldissjóði?

Frá æfingu kóranna í Miðgarði.

„Við gætum þetta ekkert annars. Það er fjöldi fólks sem kemur að þessu og mikil vinna sem liggur að baki. Það þarf að greiða laun og húsaleigu en til að svona viðburður verði að veruleika er fólk oft tilbúið að leggja ýmislegt á sig. Kórfólkið er að leggja fram bæði kost og húsnæði og ýmsa snúninga. Við erum svo heppin að formaður okkar kórs, Svanhildur Pálsdóttir, tók að sér framkvæmdastjórn en það er að mörgu að hyggja við skipulagningu svona stórs verkefnis þannig að allt gangi upp,“ segir Helga. „Fullveldisstyrkurinn skiptir sköpum. En það er líka mikill heiður að vera eitt af þessum verkefnum sem hljóta styrk úr Fullveldissjóði. En svo eru komnir fleiri styrkir í þetta eins og frá Tónlistarsjóði, Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra, Menningarsetrinu í Varmahlíð og Menningarsjóði KS og erum við afar þakklát fyrir það,“ bætir Helga við. „Við hlökkum mikið til og vonandi hrífast áheyrendur með okkur.“

Dagskráin verður flutt þrisvar sinnum. Í Miðgarði sunnudaginn 21. október klukkan 16:00, laugardaginn 27. október í Bíóhöllinni á Akranesi klukkan 16:00 og að síðustu sunnudaginn 28. október í Langholtskirkju klukkan 16:00. Miðasala er á miði.is og við innganginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir