Helgi Rafn segir Stóla skora nóg og vörnin að smella – Grannaslagur á morgun

Betur fór en á horfðist þegar Tindastólsrútan rann til í hálku í Námaskarðinu og endaði utan vegar. Myndir Helgi Rafn Viggósson.
Betur fór en á horfðist þegar Tindastólsrútan rann til í hálku í Námaskarðinu og endaði utan vegar. Myndir Helgi Rafn Viggósson.

Það gengur á ýmsu hjá karlaliði Tindastóls í körfuboltanum, þéttskipuð leikjadagskrá, tómar áhorfendastúkur, ósigrar á heimavelli, vont ferðaveður og flughálir þjóðvegir. Ekki var hægt að ferðast til Egilsstaða sl. sunnudag vegna ófærðar svo leik Stóla og Hattar var freswtað um einn dag. Á leiðinni austur vildi ekki betur til en svo að Tindastólsrútan endaði utan vegar og var leiknum af þeim sökum frestað um þrjú korter. Sem betur fer fór hún ekki á hliðina og tjónið því ekkert.

Þetta óhapp virtist ekki hafa haft nein áhrif á leikmenn liðsins sem sýndu ágætan leik á köflum og uppskáru sigur eftir góðan endasprett. Feykir hafði samband við Helga Rafn, fyrirliðann sjálfan, og forvitnaðist örlítið um liðið og stemninguna í hópnum.

„Við erum að skora nóg og vörnin small í leiknum við Hött en það er nú það sem skiptir máli, að spila almennilega vörn. Ef að það gerist erum við í mjög góðum málum. Við erum með hörkumannskap, hörku varnarlið,“ segir Helgi.

Vegna Covid ástands var lítið leikið fyrir áramót en nú hefur keppni hafist á ný. Stutt er á milli leikja og mikið álag á mönnum en Helgi er bjartsýnn fyrir hönd sinna manna. „Þetta fer bara fer vel í mannskapinn, er ekkert verra en hvað annað. Maður bara venst þessu,“ segir hann og bætir við: „Það er bara að drífa þetta af og þá er þetta búið. Menn hugsa bara vel um skrokkinn og allt svoleiðis. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“

Sjötta umferð Domino´s deildar hefst á morgun og þá verður grannaslagur norðan heiða þar sem Þór Akureyri tekur á móti Stólunum í Höllinni.

„Já, það er grannaslagur, við skulum hafa það alveg á hreinu. Hann leggst mjög vel í mig. Ef menn mæta ákveðnir í þann leik, eins og þann síðasta, þá líst mér bara mjög vel á það.“

Enn er keppt fyrir tómu húsi, og munurinn á stemningu er mikill fyrir þá sem fylgjast með á skjánum en hvernig skyldi það vera hjá leikmönnum sem vanir eru hávætti hvatningu og látum?

„Munurinn er mikill. Það er bara tvennt ólíkt að leika fyrir tómu húsi og fullu. Þetta er einhvern veginn alveg fáránlegt að spila svona, það vantar alla stemningu, trommurnar og kallana á svalirnar að rífa kjaft,“ segir hann og hlær. En hvernig gengur þá að koma sér í stemningu?

„Hver og einn verður að finna það upp hjá sér. Það hefur svo sem ekki byrjað vel hjá okkur núna á heimavelli, bunir að tapa öllum heimaleikjum þannig að við þurfum að gera eitthvað. Spurning hvort við verðum að taka rúnt um fjörðinn í rútu, láta Halla skutla okkur einn hring til að koma okkur í gírinn. En menn þurfa bara að finna það hjá sér sjálfum hvernig þeir hafa það. Það er ekkert eins hjá öllum.“

Eins og fram kemur í inngangi viðtalsins endaði Tindastólsrútan utan vegar á leið austur í Hattarleikinn en betur fór en á horfðist. Helgi segir að óhappið hafi orðið er keyrt var niður Námaskarðið en bílstjórinn hefði gert vel og afstýrði verri skaða. „Við vorum að koma út úr beygju á 40 km hraða og og rútan rann til að aftan. Bílstjórinn ætlaði að reyna að stýra henni inn á veginn en náði því ekki. Ef hann hefði reynt að beygja eitthvað meira hefði hann efalaust velt rútunni. Hann gerði vel í því að smella henni út af. Við hringdum eitt símtal, í Jón Inga verktaka í Mývatnssveitinni sem mætti í hvelli og kippti okkur upp og þá var það klárt og við farnir.“ Helgi segir þetta óhapp ekki hafa setið í mönnum enda öllu vanir.

Í lokin segist Helgi vilja hvetja stuðningsmen til að fylgjast með liðinu á TindastóllTV og í sjónvarpinu. „Maður vonar að einhvern tímann verði farið að hleypa áhorfendum inn en meðan ástandið er svona þarf maður að hvetja fólk til að fylgjast með á netmiðlunum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir