Hvalhræið reyndist andarnefja
Á Feyki.is í gær var sagt frá því að höfrung hefði rekið á land í fjöruna við Sauðárkrók. Þar fór miðillinn með rangt mál því hvalategundin heitir andarnefja sem er af ætt svínhvela og telst því ekki til höfrunga.
Gísli Víkingsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafró, segir að óvenju mikið hafi verið um hvalreka í sumar, ekki síst andarnefjur. Segir hann að starfsfólk á Hafró sé í mun að halda sem nákvæmustu skrá yfir alla hvalreka og biður fólk að hafa samband rekist það á hvalhræ. Hann segir Bjarna Jónsson, forstöðumann Náttúrustofu Norðurlands vestra, hafa tekið sýni sem verði rannsakað nánar hjá stofnuninni.
Á Vísindavefnum segir að af svínhvölum hér við land sé andarnefjan líklega sú þekktasta.
Helsta útlitseinkenni andarnefju er trýnið sem er mjótt en ennið hátt og kúpt og fær hún nafnið af þessu sérstæða höfuðlagi sem minnir á önd. Oftast er andarnefjan grásvört eða dökkbrún að ofanverðu en ljósari að neðanverðu. Dýrin lýsast oft með aldrinum. Augun eru staðsett rétt fyrir aftan munnvikin og eru öll bægsli afar smávaxin miðað við stærð hvalsins. Bakugginn er aðeins um 30 cm á lengd og liggur aftarlega á dýrinu.
Líkt og aðrir svínhvalir halda andarnefjur sig langt úti á reginhafi, á djúpslóð þar sem dýpið er að minnsta kosti 1.000 metrar. Andarnefjur eru hópdýr og er algengt að sjá þær í litlum hópum, 4 – 10 dýr saman.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.