Hólmagrundin best skreytt

Hólmagrundin var valin best skreytta gatan á Lummudögum 2017. Mynd: PF
Hólmagrundin var valin best skreytta gatan á Lummudögum 2017. Mynd: PF

Í gær var gert heyrinkunnugt hvaða gata þótti best skreytt á Lummudögum á Sauðárkróki sem og hvaða grillpartý þótti heppnast best, að mati aðstandenda Lummudagahátíðarinnar.

 Best skreytta gatan að þessu sinni var, að mati dómnefndar, Hólmagrundin. Þar hafa íbúar löngum verið duglegir við að skreyta og brást þeim ekki bogalistin nú frekar en áður en þetta er í annað sinn sem þeir vinna skreytingakeppnina.

 Þar sem norðanlognið var eitthvað að flýta sér á föstudagskvöldið á Króknum urðu grillpartýin eitthvað færri en undanfarin ár en íbúar Brekkutúns létu það ekki stoppa sig. Reistu þeir gott partýtjald sunnan götunnar og skemmtu sér sem aldrei fyrr og uppskáru fyrir vikið viðurkenningu fyrir besta partýið á Lummudögum.

Það var Steinunn Gunnsteinsdóttir stjórnandi Lummudaga sem færði íbúum gatnanna tveggja viðurkenningarnar í gær.

Fleiri fréttir