Hólmar og Ásgerður sigruðu á Skagfirðingamótinu í golfi

Árlegt golfmót burtfluttra Skagfirðinga fór fram í Borgarnesi um helgina, í 17. sinn. Um 80 kylfingar léku listir sínar í stakri veðurblíðu, heldur færri en höfðu skráð sig upphaflega en einhverjir hlaupagikkir kusu frekar að spreyta sig í Reykjavíkurmaraþoni sem fram fór á sama tíma.
Hólmar Ástvaldsson sigraði í karlaflokki með 37 punkta og Ásgerður Þórey Gísladóttir í kvennaflokki en að vanda mættu fjölmargir kylfingar af Króknum suður. Og sem fyrr var keppt um fjölda veglegra verðlauna en Skagfirðingamótið hefur jafnan notið stuðnings margra af stærstu fyrirtækjum landsins.

Um punktamót er að ræða en einnig veitt verðlaun fyrir lægsta skor, sem Guðjón Baldur Gunnarsson náði, 77 höggum. Punktahæsta parið í mótinu var Ásgerður og Eyþór Einarsson. Í öðru sæti í karlaflokki í punktakeppninni varð Pétur Friðjónsson, formaður Golfklúbbs Sauðárkróks, með 35 punkta en þeir Hólmar voru að keppa á sínu fyrsta Skagfirðingamóti. Þriðji varð Guðjón Baldur með 34 punkta. Í öðru sæti í kvennaflokki varð Guðrún Sverrisdóttir með 33 punkta og Fanney Friðbjörnsdóttir (frá Hofsósi) varð þriðja með 31 punkt.

Nándarverðlaun voru veitt á öllum par 3 brautum og náði Svanborg Guðjónsdóttir þeim árangri á tveimur brautum. Enginn komst þó nær holu en Daníel Karl Grönvold, sonur Lindu Kára, eða 16 cm á 2. braut. Lengsta upphafshögg á 9. braut átti Ásgerður Þórey hjá konunum og Sigfús Sigfússon (Fúsi Agga Sveins) hjá körlunum.

Gefendur verðlauna voru yfir 40 fyrirtæki og einstaklingar og þakka aðstandendur mótsins þeim kærlega fyrir stuðninginn. Stærstu styrktaraðilar voru Icelandair, Hótel Hamar, Flugfélag Íslands, Bláa lónið, Límtré-Vírnet, FISK Seafood, Kaupfélag Skagfirðinga, Dale Carnegie, Sjöfn Sigfúsdóttir, Ölgerðin Egill Skallagrímsson og Nói-Síríus. Landsbankinn á Sauðárkróki gefur verðlaunabikarana.


Fleiri fréttir