Hraðbankinn bilaður á Hofsósi

Íbúar á Hofsósi eru orðnir langeygir eftir því að eini hraðbankinn á svæðinu komist í lag en hann hefur verið bilaður í þrjár vikur. Þykir þetta mjög bagalegt þar sem margir notendur eru eldra fólk sem ekki gera sín reikningsskil á Netinu.

 

Bankaútibú sem þá hét Nýi Kaupþing Banki lokaði í árslok 2009 og hefur hraðbanki þjónað íbúum síðan við misgóðar undirtektir. Óánægður íbúi Hofsóss og hraðbankanotandi hafði samband við Feyki og var ekki sáttur við þessar aðstæður. Sagðist hann ekki vera með bíl til umráða til að fara upp á Krók eftir peningum og ekki heldur nettengdur og því væri málið snúið. –Ætli ég verði ekki að fá einhvern til að skutla mér á Krókinn. Það gengur ekki að vera alveg auralaus, sagði viðkomandi sem ekki vildi koma fram undir nafni.

Þær upplýsingar fengust hjá Jóel Kristjánssyni útibústjóra Arion banka á Sauðárkróki að þegar húsnæði bankans á Hofósi var selt var gerður samningur við kaupanda um að hraðbankinn fengi að vera áfram í húsinu. Þeim samningi hefur nú verið sagt upp af hálfu nýrra eigenda. Kaupandi hússins hefur staðið í endurbótum á húsnæðinu sem hefur haft miður slæm áhrif á viðkvæman búnað hraðbankans og til viðbótar var staðsetning hans utanhúss ekki heppileg miðað við veður og vinda. Er nú svo komið að ekki er talið forsvaranlegt að halda hraðbankanum gangandi við þessar aðstæður. Verið er að finna hraðbankanum varanlegri og betri staðsetningu og ekki ólíklegt að niðurstaða fáist innan skamms í þau mál.

 

-Starfsfólk Arion banka í Skagafirði gerir sér ljóst að þessar aðstæður eru notendum hraðbankans afar óþægilegar og biðjumst við velvirðingar á því, segir Jóel.

Fleiri fréttir