Hreint mataræði í Skagafirði – Þúsundasti þátttakandinn
Þann 27. febrúar ætlar Guðrún Bergmann að hefja námskeið um hreint mataræði, námskeið sem leiðir þátttakendur í gegnum 24ra daga hreinsikúr, sem byggist á mataræði, bætiefnum og jákvæðu hugarfari. Tveir sameiginlegir fundir eru fyrirhugaðir að Löngumýri og að auki verða tveir fjarfundir. Í þau tæplega þrjú ár sem Guðrún Bergmann hefur haldið námskeiðin sín hafa þau verið vel sótt. Svo vel að einhver af þeim næstu sextán sem skrá sig á námskeiðið verður þúsundasti þátttakandinn.
Hreint mataræði byggir á samnefndri bók eftir hjartasérfræðinginn Alejandro Junger, en Guðrún er annar þýðandi bókarinnar. Námskeiðið spannar 24 daga ferli og eru fyrstu þrír dagarnir nýttir til að hætta að borða ýmsar fæðutegundir sem á að forðast á meðan verið er á hreinsikúrnum. Hann stendur í þrjár vikur og skilar ævintýralegum árangri samkvæmt því sem Guðrún segir og breytingum á heilsu fólks, bæði karla og kvenna, þótt konur hafi verið í miklum meirihluta þeirra sem hafa sótt námskeiðin.
Með hverju námskeiði fylgir eintak af bókinni HREINT MATARÆÐI og handbók með styttri leið að upplýsingum, sem auðvelda innkaup. Í henni er líka fullt af uppskriftum.
REYNSLUSÖGUR
„Þær eru margar reynslusögurnar og sumar þeirra hef ég sett inn á vefsíðuna mína www.gudrunbergmann.is en sú nýjasta er mér efst í huga núna,“segir Guðrún. „Þetta er önnur konan sem nær frábærum árangri í að lækka blóðþrýstinginn hjá sér, bara með breyttu mataræði, en gefum Bryndísi Lúðvíksdóttur orðið.“
Í lok fyrsta námskeiðs árið 2018 skrifaði Bryndís þetta í Facebook hóp þátttakenda:
„Takk kærlega fyrir mig Guðrún Bergmann. Þetta er búið að vera alveg frábært og eins og ég hef áður sagt, miklu auðveldara en ég hélt! Ég trúi því varla að þetta sé búið og ég hef alls ekki beðið eftir þessum „síðasta“ degi enda er þetta alls ekki síðasti dagurinn hjá mér heldur sá 21. í nýjum lífsstíl. Mér líður svo vel að ég hlakka til að halda þessu áfram. Ég léttist um 7,5 kg á hreinsikúrnum og blóðþrýstingurinn sem var 163/99 þann 9. janúar var kominn í 138/74 þann 30. janúar án nokkurra lyfja – bara með HREINA mataræðinu. Læknirinn hafði gefið mér til 5. mars til að gyrða mig í brók og ef ekki, átti ég að fá lyf – en með þessar tölur held ég að ég sé sloppin. Whoop, whoop!“ – Bryndís Lúðvíksdóttir
SPENNT AÐ VITA HVER VERÐUR SÁ ÞÚSUNDASTI
„Þessa dagana tel ég alla sem ég skrái og ég veit að einhver af þeim næstu sextán sem skrá sig á HREINT MATARÆÐI í Skagafirði, á Akureyri eða í Reykjavík gætu orðið þeir heppnu,“ segir Guðrún.
„Það verður happdrætti hver það verður, því í skráningu eru þrjú námskeið. En til að allir fái eitthvað,“ segir Guðrún brosandi, „þá fylgir kaupauki öllum skráningum sem gerðar eru fyrir ákveðinn tíma.“
Kaupaukinn er nýjasta bók hennar HREINN LÍFSSTÍLL, sem fjallar um hvaða lífsstílsbreytingar hægt er að framkvæma til að öðlast betri heilsu og bætt lífsgæði. Í bókinni er einnig að finna fullt af uppskriftum.
„Ég hlakka til að koma norður. Ég kynntist því sjálf hversu afskipt landsbyggðin er þau 15 ár sem ég bjó á Hellnum, en veit líka að á landsbyggðinni vílar fólk ekki fyrir sér að keyra langar leiðir ef það hefur áhuga á að taka þátt í einhverju.“
Spurð hvort hún hafi einhverjar tengingar til Skagafjarðar, segir Guðrún að þær séu nú ekki miklar. „Það býr þó í mér smá Skagfirðingur því langafi minn, Pétur Zophoníasson, var frá Viðvík.“
Hægt er að skrá sig á námskeiðið HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.