Hreppsnefnd Akrahrepps ekki einhuga um sameiningarviðræður

Ekki er samstaða innan hreppsnefndar Akrahrepps um að þekkjast boð Sveitarfélagsins Skagafjarðar til formlegra viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna tveggja í Skagafirði en hreppsnefndin tók málið fyrir á fundi sínum fyrir helgi. Varaoddviti telur Akrahrepp hafa fjárhagslegt bolmagn, mannauð og þekkingu til að reka gott samfélag áfram.

Í tillögu byggðaráðs Svf. Skagafjarðar er stungið upp á því að til stuðnings sveitarfélögunum í viðræðuferlinu verði leitað liðsinnis óháðra ráðgjafa til að meta kosti og galla mögulegrar sameiningar og þau tækifæri sem í henni gætu falist.

Í greinargerð tillögunnar segir að mikilvægt sé að vinna faglegt mat á kostum, göllum og tækifærum sem felast í sameiningu sveitarfélaganna tveggja og sýn um þá uppbyggingu sem þarf að ráðast í til að styrkja samkeppnishæfni og búsetuskilyrði samfélagsins í Skagafirði. Þá var lagt að hvort sveitarfélag um sig tilnefni fimm fulltrúa sem leiði viðræðurnar og jafnframt verði sótt um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þeirrar vinnu.

Í fundargerð hreppsnefndar Akrahrepps segir að umræður hafi farið fram um fundarboð byggðaráðsins en ekki væri samstaða um það innan hreppsnefndar að tímabært væri að hefja formlegar sameiningarviðræður: „Þó telur hreppsnefnd það grundvöll fyrir allri ákvarðanatöku að farið verði í það að meta hugsanlegan ávinning og veikleika mögulegrar sameiningar á forsendum sveitarfélagsins og með hag samfélagsins alls að leiðarljósi. Slík vinna yrði unnin í víðtæku samráði við íbúa og niðurstaðan lögð fyrir þá til ákvörðunar um áframhaldið.“

Einar Gunnarsson varaoddviti efast um kosti hugsanlegrar sameiningar og lagði fram sérbókun: „Nú hefur meirihluti hreppsnefndar Akrahrepps ákveðið að hefja vinnu við skoðun á kostum og göllum sameiningar við Sveitarfélagið Skagafjörð. Leiði sú vinna til sameiningar flyst öll ákvarðanataka um okkar stærstu hagsmunamál til pólitískt kjörinna fulltrúa í öðru sveitarfélagi, en eins og kunnugt er snúast pólitískir hagsmunir ekki eftir því hvernig vindar blása í Blönduhlíð.
Meðal mála sem nú eru á borði hreppsnefndar er uppbygging skólanna í Varmahlíð en þar á Akrahreppur 25% eignarhlut og einnig er nýhafin vinna við endurskoðun aðalskipulags. Við getum haft mikil áhrif á þróun okkar samfélags ef við vöndum vinnubrögð við afgreiðslu þessa mála.
Samstarf sveitarfélaga, kaup og sala þjónustu þeirra á milli án þess að staðsetning þeirra skipti máli verður sífellt auðveldari. Rafræn stjórnsýsla og störf án staðsetningar eiga eftir að auðvelda rekstur smærri sveitarfélaga. 
Akrahreppur hefur sjálfur fjárhagslegt bolmagn, mannauð og þekkingu til að reka gott samfélag áfram.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir