Hreyfivikan hófst í gær
Hreyfivikan (e. Move Week) hófst í gær en herferðin nær um gjörvalla Evrópu dagana 29. september – 5. október 2014. Hreyfivikan er hluti af „The NowWeMove 2012-2020“ herferð International Sport and Culture Association (ISCA) en framtíðarsýn herferðarinnar að 100 milljónir fleiri Evrópubúa verði orðnir virkir í hreyfingu og íþróttum fyrir árið 2020 og að fólk finni hreyfingu sem hentar því.
Í fréttatilkynningu segir að Hreyfivikan sé almenningsíþróttaverkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu, sem öll eru aðilar að ISCA.
„Sambandsaðilar UMFÍ munu taka virkan þátt í Hreyfivikunni „Move Week“ og bjóða upp á fjölda viðburða og tækifæra fyrir fólk til að kynna sér fjölbreytta hreyfingu sér til heilsubótar,“ segir loks í tilkynningu.
Sex aðilar eru skráðir þátttakendur á Sauðárkróki og einn á Skagaströnd. Zumba Fitness vinatími var í gær í íþróttasalnum í gamla barnaskólanum á Sauðárkróki og einnig í Fellsborg á Skagaströnd. Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki – eldra stig tekur þátt m.a. með því að fara með börnin í gönguferðir, Sjúkraþjálfarar frá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki ætla að bjóða upp á fræðslu i fyrirtækjum.
Þá ætlar Sabína Steinunn Halldórsdóttir ætlar að koma, vera með fræðslu um hreyfingu og kynningu á Ringo fyrir nemendur og starfsfólk FNV, Knattspyrnudeild Tindastóls verður með opnar æfingar fyrir alla krakka að 16 ára aldri og Sveitafélagið Skagafjörður bíður öllum frítt i sund milli kl 17 og 19 alla daga hreyfivikunnar. Þetta gildir í laugarnar á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð.
Fylgstu með á www.umfi.is og á http://www.iceland.moveweek.eu/ og skráðu þig og vertu með í því að koma Ísland á hreyfingu í Hreyfivikunni.