Hryllilegt ástand

Ástand fótboltavallarins á Sauðárkróki er vægast samt slæmt og ekki hefur verið hægt að leika þar heimaleiki í meistaraflokkum karla og kvenna það sem af er sumri. Ekki er útlit fyrir að bót verði ráðin á því á næstunni.

Blaðamaður Feykis smellti mynd af vellinum í morgunsárið og hafði samband við Ómar Braga Stefánsson, formann knattspyrnudeildar Tindastóls. Ómar segir ástandið vægast sagt hryllilegt og síst betra en á sama tíma og í fyrra, en þá var völlurinn ónothæfur langt fram eftir sumri.

Í dag aka strákarnir í meistaraflokki karla daglega 70 kílómetra til að æfa á vellinum á Hofsósi, með tilheyrandi kostnaði og tíma sem í það fer. Stelpurnar hafa kosið að æfa uppi á Nöfum, á „skelfilegu túni sem er beinlínis hættulegt,“ að sögn Ómars Braga. Þá eru ótaldar æfingar yngri flokka, sem færast upp á Nafir með tilheyrandi óþægindum.

Næsti heimaleikur meistaraflokks karla er 5. júní og hefur verið óskað eftir því við KA að leikurinn verði á Akureyri en Tindastóll fái í staðinn heimaleik síðar í sumar. Strákarnir hafa átt einn heimaleik það sem af er sumri og var hann á Akureyri. Kröfurnar vegna leikja stelpnanna eru minni og því hafa heimaleikir þeirra getað farið fram á Hofsósi.

Í vetur voru talsverðar umræður um yfirbyggðan gervigrasvöll en Ómar Bragi segist ekki hafa fengið nein skilaboð frá sveitarfélaginu um að þetta standi til bóta. „,Ég sé ekkert í spilunum um að heimaleikirnir, sem áformaðir eru í byrjun júní, verði leiknir hér, það verður líka að passa upp á völlinn þegar hann fer að grænka, það þýðir ekkert að vaða inn á hann strax. Þetta er ekki hægt lengur,“ sagði Ómar Bragi að lokum.

Fleiri fréttir