Húnvetnska liðakeppnin á Blönduósi á morgun

Húnvetnska liðakeppnin heldur áfram á morgun, laugardaginn 25. febrúar, og verður keppt í smala og skeið en Hestamannafélagið Neisti hefur umsjón með mótinu að þessu sinni. Mótið verður haldið í Reiðhöllinni Arnargerði á Blönduósi. kl. 14.00.

Þá verður keppt í unglingaflokki (fædd 1995 og seinna), 3. flokki, 2. flokki og 1. flokki. Í 1. og 2. flokki fá 9 hestar að fara brautina aftur en 5 hestar fara brautina aftur í úrslitum í 3. flokki og unglingaflokki.

Um smala og skeið

„Í skeiði má hver knapi keppa á eins mörgum hrossum og hann vill en getur aðeins fengið stig fyrir einn hest eins og í öðrum greinum. Þessi keppni gefur mismunandi stig í liðakeppninni og einstaklingskeppninni,“ segir á heimasíðu Þyts. „Smalinn dregur nafn sitt af einu mikilvægasta hlutverki íslenska hestsins frá örófi alda. Eiginleikar sem prýða góðan smala og smalahest eru nauðsynlegir ef árangur á að nást, þetta eru þættir eins og hraði, kjarkur, fimi og snerpa.“

Nánari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu Þyts.

 

 

Fleiri fréttir