Húsnæðisáætlun Blönduósbæjar gefin út

Stærstur hluti íbúðarhúsnæðis á Blönduósi er í einbýli. Mynd:FE
Stærstur hluti íbúðarhúsnæðis á Blönduósi er í einbýli. Mynd:FE

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að gerð húsnæðisáætlunar fyrir Blönduósbæ sem hefur það að markmiði að skapa yfirsýn yfir húsnæðismál, meta þarfir ólíkra hópa og gera áætlun um uppbyggingu íbúða til næstu átta ára. Er hún unnin í samræmi við reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga sem tók gildi í desember á síðasta ári þar sem kveðið er á um að öll sveitarfélög skuli gera húsnæðisáætlun til fjögurra ára í senn sem skuli uppfærðar árlega með tilliti til breytinga og þróunar sem orðið hafa á forsendum hennar milli ára.

Húsnæðisáætlun Blönduósbæjar 2019-2027 skiptist í fjóra kafla. Í þeim fyrsta er fjallað um stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu, annar kaflinn fjallar um skipulagsáætlanir, sá þriðji er um þarfagreiningu og sá fjórði er um markmið og aðgerðaáætlun.

Í húsnæðisáætluninni kemur m.a. fram að í lok ársins 2018 voru 382 íbúðir á Blönduósi og 939 íbúar eða 2,45 íbúar á hverja íbúð. Mest er um einbýlishús, þau eru 232 eða 61% húsnæðisins, íbúðir í fjölbýli eru 60 talsins eða 16%, íbúðir í parhúsum eru 48 eða 12% og í raðhúsum eru 42 íbúðir sem jafngilda 11% af  húsnæði sveitarfélagsins. Þá kemur fram að þann fyrsta maí sl. voru 29 íbúðir í byggingu en nýbygging íbúðarhúsnæðis hefur að mestu legið niðri í sveitarfélaginu síðustu 25 ár eða frá árinu 1993.

Húsnæðisáætlun Blönduósbæjar má finna á vef sveitarfélagsins en hún er lifandi plagg, sem mun þróast og taka breytingum árlega. Gert er ráð fyrir að fyrsta breyting verði gerð 1. mars 2020.

Húsnæðisáætlunina má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir