HVE færðar gjafir vegna 100 ára afmælis
Á laugardaginn var hefði Hjörtur Eiríksson á Hvammstanga orðið 100 ára og af því tilefni voru Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga færðar gjafir til minningar um hann og konu hans, Ingibjörgu Levý.
Afkomendur og tengdabörn þeirra hjóna fjölmenntu á Heilbrigðisstofnunina og afhentu fimm sjónvörp, ásamt veggfestingum, og fimm útvörp með geislaspilara. Vistfólk og hluti starfsfólks stofnunarinnar var viðstatt afhendinguna. Það var Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sonardóttir þeirra hjóna, sem ávarpaði gestina og afhenti gjafirnar.
Guðmundur Haukur Sigurðsson, svæðisstjóri, veitti gjöfunum viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar og þakkaði þann hlýhug sem gjöfunum fylgdi og taldi þær koma að góðum notum fyrir þá sem búa og starfa á Heilbrigðisstofnuninni. Að lokum gæddu viðstaddir sér á veislukaffi í boði aðstandenda Hjartar og Ingibjargar.
Hjörtur var fæddur 20. september 1914 á Efri-Svertingsstöðum í Miðfirði. Foreldrar hans voru Guðrún Gísladóttir frá Kvíslaseli í Bæjarhreppi og Eiríkur Hjartarson sem fæddur var á Holtastaðareit í A-Hún. Ingibjörg Eggertsdóttir Levý var fædd 2. janúar 1906 á Ósum á Vatnsnesi. Foreldrar hennar voru Eggert Levý og kona hans Ögn Guðmannsdóttir.
Hjörtur og Ingibjörg bjuggu lengst af á Brekkugötu 8 á Hvammstanga, í húsi sem þau hjón byggðu og nefndu Valhöll. Hjörtur og Ingibjörg eignuðust sjö börn, son sem dó í frumbernsku, Hrein, Perlu Ögn, Eggert Heimi, Eirík Hauk, Skúla Hún og Hilmar. Hjörtur rak í áratugi vélaverkstæði á Hvammstanga ásamt Sigurði bróður sínum og síðar Hilmari syni sínum undir nafninu Vélaverkstæði Hjartar Eiríkssonar. Frá þessu er greint á vefnum Norðanátt.is.