Í minningu Eyþórs Stefánssonar
Í tilefni af því að 110 ár eru liðin frá fæðingu Eyþórs Stefánssonar á Sauðárkróki verður haldin samkoma í Sauðárkrókskirkju á afmælisdegi hans, 23. janúar nk. kl. 20.30 þar sem minnst verður tónskáldsins og heiðursborgarans.
Óperusöngvarinn Gissur Páll Gissurarson syngur lög eftir Eyþór við undirleik Rögnvalds Valbergssonar og frú Hulda Jónsdóttir flytur erindi um Eyþór, starf hans og list. Þá mun Kirkjukór Sauðárkrókskirkju flytja lög eftir Eyþór undir stjórn Rögnvalds Valbergssonar.
Sóknarprestur og sóknarnefnd hvetur alla til að koma og njóta kvölds í tali og tónum í kirkjunni okkar.