Í upphafi skyldi endinn skoða

Undirrituð lagði fram fyrirspurn til Byggðarráðs vegna kostnaðar þess hluta Byggðarsafnsins sem staðsettur er á Sauðárkróki. Í svörum meirihluta Byggðarráðs kemur m.a. fram að sveitarfélagið Skagafjörður greiðir ríflega 600.000 krónur í mánaðarlega leigu af Minjahúsinu. Leigugreiðslur eru því komnar vel yfir 10 milljónir af húsi sem áður var í eigu Sveitarfélagsins, þar til makaskipti við Aðalgötu 21 áttu sér stað. Það er því orðið ansi kostnaðarsamt að hafa ekki fundið safninu varanlegan stað áður en Minjahúsinu var ráðstafað. Í svörum kemur einnig fram að ekki er gert ráð fyrir sýningarrými fyrir varanlegar sýningar Byggðarsafnsins í komandi Menningarhúsi. Það er mikilvægt að íbúar sveitarfélagsins séu vel upplýstir um hvernig sameiginlegum fjármunum okkar er varið, því  koma fyrirspurnir mínar og svör meirihluta í heild sinni hér:

1. Hver er kostnaður vegna bæði varðveislu- og rannsóknarhluta Byggðarsafnsins sem staðsettur er á Sauðárkróki (þ.e. safngeymslur í Minjahúsi, Borgarteigi og skrifstofur starfsfólks) frá því að makaskiptin voru gerð og í hverju felst sá kostnaður?

Leigugreiðsla vegna Aðalgötu 16b þar sem munir Byggðasafns Skagfirðinga eru varðveittir nemur samtals kr. 10.202.368,- á árunum 2018 og 2019 (út ágúst). Eignfærsla Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna varðveislurýmis að Borgarflöt nemur kr. 52.103.297,- Innifalið í þeirri tölu er kaupverð hússins og viðbætur á því s.s. uppsetning millilofta og breytingar vegna brunakrafna. Innri leiga vegna varðveislurýmis að Borgarflöt nemur kr. 4.701.125,- frá því að Sveitarfélagið Skagafjörður eignaðist sinn hlut þar. Innri leiga kemur til tekna hjá Eignasjóði á móti. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur reiknað innri leigu vegna eignarhluta síns í Aðalgötu 2 þótt það hafi ekki nýtt húsið nema að takmörkuðu leyti undanfarin ár. Því hefur ekki fallið til neinn nýr kostnaður vegna leigu aðstöðu starfsfólks Byggðasafns Skagfirðinga þann tíma sem það hefur verið þar.

2. Hver er kostnaður við geymsluhlutann á Borgarteigi, annarsvegar vegna innsetningar sérhæfðrar safngeymslu og hins vegar vegna viðbragða við áhættusamt nágrenni þeirrar staðsetningar?

Heildarkostnaður við rými Sveitarfélagsins Skagafjarðar að Borgarflöt er kr. 52.103.297,- Enginn kostnaður hefur fallið til vegna innsetningar sérhæfðrar safngeymslu en ráðist hefur verið í framkvæmdir vegna öryggis- og brunavarna. Sá kostnaður er eftirfarandi: Breytingar vegna brunakrafna 3.762.833,- Eldvarnarhurðir á milli bila 520.000,- Öryggis- og eldvarnarkerfi 1.650.000,- Upphæðin á breytingum vegna brunakrafna er innifalin í ofangreindum heildarkostnaði en upphæðin fyrir eldvarnarhurðum og öryggis- og eldvarnarkerfi er þar til viðbótar þar sem sá kostnaður er áætlaður og framkvæmd ekki hafin.

3. Hve lengi er talið að sá hluti safnsins sem er á Sauðárkróki verði í þessum aðstæðum (of lítið geymslurými, engin sýningaraðstaða, takmörkuð rannsóknar- og munaaðstaða sem dæmi)?

Í drögum að samkomulagi við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna byggingar nýs menningarhúss á Sauðárkróki er gert ráð fyrir að fjármögnun þess dreifist á árin 2020-2023 og að lokafjármagn vegna þess verði þannig greitt á árinu 2023 þegar ætla má að framkvæmdum ljúki. Gert er ráð fyrir að í nýju menningarhúsi verði aðstaða fyrir sérfræðinga Byggðasafns Skagfirðinga og fullkomið varðveislurými sem stenst allar kröfur sem til slíkra rýma eru gerðar. Þar með verður Byggðasafn Skagfirðinga eitt fárra safna á landinu sem getur státað sig af þeim aðbúnaði. Er þar um mikil gleðitíðindi að ræða því aðstaðan fyrir varðveislu muna í Minjahúsinu á Sauðárkróki hefur ekki þótt boðleg til langframa og fyrirséð að ráðast hefði þurft í mikinn kostnað við endurbætur hússins og viðbyggingu hefði starfsemi safnsins átt að vera þar til einhverrar framtíðar. Þegar nýtt menningarhús á Sauðárkróki verður tilbúið er gert ráð fyrir að selja þá aðstöðu sem er í eigu sveitarfélagsins að Borgarflöt. Verið er að móta hugmyndir um framtíðarstaðsetningu sýninga Byggðasafns Skagfirðinga á Sauðárkróki.

4. Hvaða afleiðingar er talið að þessar aðstæður sem hluti Byggðarsafnsins er sett í muni hafa fyrir safnið?

Byggðasafn Skagfirðinga er nú sem fyrr stolt Sveitarfélagsins Skagafjarðar enda leggur það metnað sinn í að aðbúnaður safnsins og umgjörð verði sem best, sbr. fyrirætlanir um að tryggja fullkomið varðveislurými og aðstöðu fyrir sérfræðinga Byggðasafnsins þar sem þeir geta unnið þverfaglega með öðrum sérfræðingum, s.s. starfsmönnum Héraðsskjalasafns, Héraðsbókasafns o.fl. Safnaráð hefur tekið út þann aðbúnað sem munir Byggðasafns Skagfirðinga verða í þar til fullkomið varðveislurými verður tilbúið í nýju menningarhúsi á Sauðárkróki, og veitt tímabundna heimild til varðveislu munanna þar. Ekki er því talið að tilfærsla munanna frá Aðalgötu til Borgarflatar hafi neinar afleiðingar fyrir varðveislu muna. Flutningum fylgir vissulega ákveðið álag á starfsemi og muni en búið er að flokka, skrá, ljósmynda, þrífa og endurpakka alla muni í því ferli og þeir tilbúnir til flutninga. Starfsmenn Byggðasafns sem áður störfuðu í Minjahúsinu á Sauðárkróki hafa undanfarna mánuði starfað í aðstöðu sveitarfélagsins að Aðalgötu 2. Aðstaða starfsmanna Byggðasafnsins tekur að miklu leyti mið af þeirri vinnu sem þeir fást við hverju sinni.

5. Hver er mánaðarleg leiga af Minjahúsinu og hversu lengi er áætlað að það verði leigt áfram af Sveitarfélaginu?

Mánaðarleg leiga fyrir húsnæðið er kr. 595.000,- Með vísitöluhækkun er leigan í dag kr. 605.921,- Húsið verður leigt áfram þar til búið er að flytja muni Byggðasafnsins í varðveislurými að Borgarflöt. Gert er ráð fyrir að flutningur muna úr Minjahúsi geti hafist í nóvembermánuði og tekið sex til átta vikur ef veðuraðstæður eru hagfelldar.

6. Hver er kostnaður við pökkun minja Byggðarsafnsins þegar allt er talið, laun starfsmanna, námskeiðsgjöld, umbúðir o.fl.?

Frá árinu 2017 til 30. september 2019 er kostnaðurinn 14.689.299 kr. Þar af launakostnaður 11.529.823 kr. Geta má þess að samhliða pökkun á munum Byggðasafnsins fyrir flutning var ráðist í að þrífa, umpakka og ljósmynda alla safngripi og stefnt var á fullnaðarskráningu í menningarsögulega gagnasafnið Sarp (Sarpur.is) á árinu 2018. Því markmiði hefur að mestu verið náð, þ.e. búið er að færa alla skráða gripi inn í Sarp, ljósmynda munina og færa stóran hluta þeirra inn á vefinn. Verkefnastyrkir frá Safnasjóði á þessu tímabili nema 3,9 milljónum króna og hafa komið á móti kostnaði við skráninguna. Þessi vinna við skráningu, þrif og pökkun er vinna sem ráðast hefði þurft í fyrir flutning í varanlegt varðveislurými þannig að ekki kemur til þess kostnaðar aftur vegna þeirra muna.

7. Talað er um verðandi Menningarhús sem fullkomið varðveislurými. Eru engin áform um sýningarrými á Sauðárkróki fyrir Byggðarsafnið eða rannsóknaraðstöðu?

Í nýju menningarhúsi á Sauðárkróki er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir starfsmenn Byggðasafns, Héraðsskjalasafns, Héraðsbókasafns og starfsmenn Sögufélags Skagfirðinga, þannig að unnt sé að vinna saman í þverfaglegri vinnu. Einnig er gert ráð fyrir rými til að hreinsa, rannsaka og mynda gögn af hálfu fyrrgreindra aðila. Þá er gert ráð fyrir varðveislurými af fullkomnustu gerð. Ekki er gert ráð fyrir sýningarrými fyrir varanlegar sýningar Byggðasafnsins en gert er ráð fyrir fjölnota sal sem getur þjónað hlutverki hússins sem miðstöð lista og fræða í Skagafirði. Þar geta verið tímabundnar sýningar Byggðasafns Skagfirðinga ef svo ber undir, líkt og stundum hafa verið settar upp hjá safninu.

Álfhildur Leifsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir