Íbúum hefur fjölgað um 1,4%

Hlutfallslegar breytingar á skráðum íbúum eftir landshlutum milli 1. des. 2018 og 1. nóv. 2019. Mynd:skra.is
Hlutfallslegar breytingar á skráðum íbúum eftir landshlutum milli 1. des. 2018 og 1. nóv. 2019. Mynd:skra.is

Íbúum Norðurlands vestra hefur fjölgað um 98 eða um 1,4% frá 1. desember 2018 til 1. nóvember sl. samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá. Íbúum á landinu öllu hefur fjölgað um 6.722 manns eða 1,9% á þessu tímabili en þann 1. nóvember voru 363.393 með skráða búsetu á landinu.

Íbúar Norðurlands vestra eru nú 7.325 og hefur fjölgað í öllum sveitarfélögum landshlutans á tímabilinu nema í Húnavatnshreppi þar sem fækkaði um fjóra eða 1,1%. Mesta fjölgunin var í Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem fjölgaði um 41 einstakling, úr 3.990 í  4.031 eða 1,0% en hlutafallsleg fjölgun er mest í fámennasta sveitarfélaginu, Skagabyggð, þar sem hún er 4,5% eða fjórir einstaklingar.

Sem fyrr segir er Skagafjörður fjölmennasta sveitarfélagið með 4.031 íbúa. Húnaþing vestra kemur næst með 1.204 íbúa og fjölgun um 1,9%. Í Blönduósbæ hefur fjölgað um 1% en þar búa 944 manns. Á Skagaströnd búa 479, þar er næstmest hlutfallsleg fjölgun eða 4,4%, í Húnavatnshreppi búa 370, hefur fækkað um 1,1% eins og áður sagði og í Akrahrepppi búa 205 þar sem fjölgað hefur um 2,5% frá 1. desember á síðasta ári. Skagabyggð rekur svo lestina með 92 íbúa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir