Ingunn dýralæknir segir upp þjónustusamningi við MAST

Ingunn Reynisdóttir dýralæknir í Húnaþingi hefur sagt upp þjónustusamningi við MAST og segir hún á Facebook síðu sinni að ástæðan fyrir uppsögninni hafi verið að hlaðast upp á löngum tíma þar sem hún m.a. hafi allt of stóru svæði að sinna og afleysingar engar. Vegna þessa álags hefur Ingunn ekki fengið sumarfrí í átta ár og þá hefur veturinn reynst henni erfiður þar sem aðstæður hafa skapast sem enginn dýralæknir ætti að þurfa að berjast við einn. 

Ingunn hefur verið starfandi í Húnaþingi vestra síðan 2003 og hefur áður bent á erfiða stöðu dýralækna á svæðinu en árið 2012 var sagt frá því í Feyki þegar hún vildi ekki gera þjónustusamning við MAST. „Ástæðan fyrir því að ég tók ekki þeim samningi sem MAST bauð mér var vegna þess að stærð svæðisins er of mikill og fjöldi dýra allt of mikill fyrir einn dýralækni að komast yfir og það myndi eingöngu bitna á velferð dýra, fannst mér ástæða að benda á þetta og neitaði því að taka þessum samning,“ sagði Ingunn fyrir átta árum.

Skömmu síðar náðust þó samningar sem hafa haldið allt fram til nóvember síðastliðnum er samningar þjónustudýralækna runnu út en þeir verið framlengdir til 1. maí. Settur var á samráðshópur sem Matvælastofnun, atvinnu og nýsköpunarráðuneytið og dýralæknafélagið eiga sæti í til að finna lausnir á þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum landsins.

Ingunn segir engar lausnir vera í sjónmáli og mánuður í að allir þjónustudýralæknir verði samningslausir, verði ekki samið fyrir þann tíma. „Allir þjónustudýralæknar eru sammála um að skrifa ekki undir óbreyttan samning án þess að eiga kost á afleysingu. Ég hef margoft bent á lausnir á þessu svæði, skipta svæðinu í tvennt, það er einn þjónustudýralæknir í Austur Hún. og annar í Vestur Hún. Þeir gætu þá aðstoðað hvorn annan bæði með álag og afleysingar,“ segir Ingunn.

Hún segist ætla að starfa áfram á svæðinu sem sjálfstætt starfandi dýralæknir, sem getur falið í sér önnur tækifæri. „Ég get þá meira um frjálst höfuð strokið með að vinna meira með mína sérhæfingu þar sem ég er lærður dýrahnykkjari og get þá ferðast um land og veitt þá þjónustu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir