Innlyksa á Húsabakka í Skagafirði

Hér sést í bæði Ytri og syðri Húsabakka og hvernig vötnin hafa flætt yfir allt hjá þeim. Mynd: Þorgrímur Ómar
Hér sést í bæði Ytri og syðri Húsabakka og hvernig vötnin hafa flætt yfir allt hjá þeim. Mynd: Þorgrímur Ómar

Í gær kom tilkynning frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra um mikla vatnavextir í Austari Jökulsá og Héraðsvötnum. Ábúendur á Syðri og Ytri Húsabakka í Skagafirði hafa fundið vel fyrir þessum vatnavöxtum enda innlyksa og skemmdir á vegum og túnum ekki skýr að svo stöddu.

Þorgrímur Ómar á Ytri-Húsabakka sendi okkur nokkrar myndir en myndband af stöðunni er hægt að sjá á Facebook-síðunni Vatnaveröld smábátasafn en það sýnir stöðuna í morgun í kringum safnið og bæina tvo sem staddir eru við árbakka Héraðsvatna. Eins og sjá má lítur þetta ekki vel út og vonandi versnar þetta ekki hjá þeim. 

Fyrir áhugasama þá hefur Þorgrímur Ómar komið upp Smábátasafni á Húsabakka sem ætlunin er að opna fyrir gesti um miðjan júní en á safninu er til sýnis mismunandi byggingarlag báta sem hafa verið smíðaðir víðsvegar um landið og er stefnt að því að geta sýnt hvernig mismunandi sjólag og straumar einkenna bátasmíðar frá mismunandi landshlutum. Safnið er þó byggt á bátasmíði Þorgríms Hermannssonar (1906-1998), bátasmiðs frá Hofsósi og afa Þorgríms Ómars, en eftir hann lágu um eitt hundrað bátar en líklega eru ekki nema um tuttugu bátar eftir í dag, fimm bátar eru þegar komnir á safnið sem voru smíðaðir af Þorgrími. Í dag hefur safnið að geyma 28 báta í mismunandi ástandi, allt frá því að vera nothæfir til sjósókna og til þess að vera eingöngu til sýninga á byggingalagi. Auk bátanna er einnig komið stýrishús af Maríu Júlíu, fyrsta varðskipi Vestfirðinga, sem ætlunin er að nota til að bjóða upp á kaffisopa fyrir safngesti. Einnig eru ýmisskonar veiðarfæri á safnsvæðinu, eins og togspil, skelfisks- og ígulkersplógar, hlutir til línuveiða eins og stampar, stólar og línuefni eins og lórulína, hákarlalína og lúðulína. Ein að minnsta kosti þrjátíu ára gömul flotbryggja er á safnsvæðinu auk tveggja heimasmíðaðra bryggja til að nota sem sviðsmynd fyrir "hafnarsvæðið".

Fleiri fréttir