Ísak Óli Traustason íþróttamaður Tindastóls 2019

Guðlaugur Skúlason afhendir Ísaki Óla bikarinn fyrir íþróttamann Tindastóls. AÐSEND MYND.
Guðlaugur Skúlason afhendir Ísaki Óla bikarinn fyrir íþróttamann Tindastóls. AÐSEND MYND.

Fyrr á árinu var íþróttamaður Tindastóls kosinn fyrir árið 2019 og að þessu sinni varð það Ísak Óli Traustason, frjálsíþróttamaður, sem varð fyrir valinu. Í tilkynningu frá Tindastóli segir að Ísak Óli hafi átt gott ár í frjálsum á síðasta ári og því vel að þessum titli kominn. Jafnframt hlaut Ísak Óli titilinn Íþróttamaður Skagafjarðar og Frjálsíþróttamaður Tindastóls árið 2019. Fjallaði Feykir þá um málið. Er hann því með þrennu eftir síðasta ár.

Ísak Óli er fæddur árið 1995 og verður því 25 ára í október á þessu ári. Hann er frá bænum Syðri-Hofdölum í Skagafirði og er sonur Trausta Kristjánssonar og Ingibjargar Aadnegard. Hann gekk í Varmahlíðarskóla og síðan FNV á Sauðárkróki. Nú stundar hann nám í íþrótta- og heilsufræði við HÍ, býr í Reykjavík á veturna en Skagafirði á sumrin þar sem hann vinnur á íþróttavellinum á Sauðárkróki.

Að sögn Ísaks átti hann ekki endilega von á þessum titli og kom þetta honum skemmtilega á óvart því Skagfirðingar eigi fullt af flottum íþróttamönnum sem séu að standa sig frábærlega. Hann segist hafa fyrst prufað frjálsar árið 2010 en ekki byrjað að æfa á fullu fyrr en um 2013/2014 og frá 2016 hefur hann alfarið einbeitt sér að tugþraut. Aðspurður segir Ísak erfitt að velja eina uppáhalds grein en klárlega sé það tugþrautin sem séu tíu greinar, en nefnir þó að grindarhlaup og stangarstökk séu í uppáhaldi þessa dagana.

„Undirbúningur fyrir mót er mjög mikilvægur. Ég minnka álagið á æfingum vikuna fyrir, fer í gegnum keppnisreglurnar í huganum og sé þetta fyrir mér. Ég sef síðan vel, borða góðan mat og mæti úthvíldur og ferskur til keppni,“ segir Ísak Óli er hann er beðinn að gefa lesendum Feykis uppskrift að góðum keppnisdegi.

Ísak Óli fékk bikarinn fyrir íþróttamann Tindastóls afhentan ekki fyrr en nú í vikunni vegna GOVID. Var það Guðlaugur Skúlason, formaður Tindastóls er afhenti hann. Óskar Feykir Ísak Óla til hamingju með þennan frábæra árangur og velfarnaðar í komandi keppnum.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir