Íslandsmeistaramót í Skagafirði og tvö lið í WOW Cyclothon - Hjólreiðafélagið Drangey stendur í stórræðum

Félagar Hjólreiðafélagsins Drangeyjar á æfingu. Aðsend mynd.
Félagar Hjólreiðafélagsins Drangeyjar á æfingu. Aðsend mynd.

Það verður nóg að gera hjá liðsmönnum Hjólreiðafélagsins Drangeyjar í Skagafirði en nk. sunnudag, 23. júní, mun félagið standa fyrir Drangeyjarmótinu, sem er hluti af Íslandsmeistaramóti í hjólreiðum. Þremur dögum síðar taka tvö lið frá klúbbnum þátt í WOW Cyclothon.

Feykir ræddi fyrir helgi við þá félaga Pétur Inga Björnsson og Hallbjörn Björnsson, stjórnarmenn í Drangey og var þá um 60 skráningar komnar í Drangeyjarmótið en þeir gerðu ráð fyrir því að þeim ætti eftir að fjölga. Keppt er í sex styrkleikaflokkum karla og kvenna og geta allir tekið þátt. Farið er af stað frá Húsi frítímans á Sauðárkróki en fyrsti hópurinn er ræstur kl. 7:30 en sá síðasti kl. 8:00.

Hjólað er fram braut í Varmahlíð og út Blönduhlíð að vegamótum Siglufjarðarvegar og Sauðárkróksbrautar. Þar skiptast hóparnir, annars vegar þeir sem fara stystu leiðina og upp á Krók og þeir sem taka lengri leiðina og hjóla út í Hofsós, taka hring þar og til baka og upp á Krók. Kvennaflokkurinn endar við Hús frítímans en masterskarlarnir halda áfram alla leið upp í skíðalyftu og hafa þá hjólað 125 km og þar af rúmlega tvo km í klifur. Þess má geta að frá Króknum og upp í skíðalyftu er nánast öll leiðin upp í móti og síðasti kaflinn brött og löng brekka.

Pétur Ingi segir að það sem þykir spennandi við Skagafjörð sem keppnissvæði í Íslandsmeistaramótinu er hve skemmtilegar hjólaleiðir er hægt að bjóða upp á. „Við eigum þær margar í Skagafirði, og ekki mikil umferð miðað við það sem gerist fyrir sunnan.“ 

WOW Cyclothon
Það er skammt stórra högga á milli því aðeins þremur dögum síðar ætla 20 einstaklingar, í tveimur tíu manna liðum undir merkjum Drangeyjar, að leggja af stað frá Reykjavík og hjóla hringinn í kringum landið í WOW Cyclothon.

„Allt eru þetta Skagfirðingar og nær jafnt kynjahlutfall í liðunum. Við keppum saman þessi lið að því leyti að 18 munu hjóla og tveir keyra bílinn. Það eru alltaf tveir sem hjóla í einu,“ segir Pétur og bætir við: „Breytingin hjá okkur frá fyrri keppni er að við eignuðumst langferðabíl sem við breyttum í hjólreiðalangferðabíl, þar sem öll hjólin komast inn og hjólafólkið getur hvílt sig.“

Þeir sem vilja fylgjast með geta gert það á Facebooksíðu Hjólreiðafélagsins Drangeyjar og wowcyclothon.is/

Að  sögn þeirra Péturs og Hallbjörns er mikill áhugi á hjólreiðum í Skagafirði og hópurinn stór sem hjólar reglulega og telur klúbburinn um 40 félaga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir