Íslandsmeistarar sigra síðustu rallýkeppni tímabilsins

Laugardaginn 27. september fór fram síðasta umferð Íslandsmótsins í rallý á keppnistímabilinu 2014. Ekið var um uppsveitir Rangárvallasýslu, nánar tiltekið Landmannaleið og Tungnaá, alls sex sérleiðir sem spönnuðu samtals 119 km. Samkvæmt fréttatilkynningu reyndist keppnin bílum og mönnum erfið en 15 áhafnir hófu leikana.

„Þegar yfir lauk skiluðu einungis 8 bílar sér í endamark, rétt tæplega helmingur þátttakenda féll því úr leik enda voru aðstæður nokkuð krefjandi þar sem ekið var um mjög ójafna og erfiða vegi. Var algengast að fjöðrunarbúnaður eða drifbúnaður gæfi sig og gerði keppendum ómögulegt að halda áfram,“ segir í tilkynningunni.

Engar bilanir eða aðrar uppákomur hrjáðu þá TímOn-félaga, Baldur og Aðalstein á Subaru Impreza Sti, en þeir höfðu fyrir keppnina þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í ár. Náðu þeir strax á fyrstu leiðinni besta tímanum, héldu síðan öruggu forskoti allt til enda og sigruðu í keppninni með tæplega fjögurra mínútna forskoti á næstu áhöfn, Íslandsmeistarana frá í fyrra, Henning og Árna sem einnig óku Subaru Impreza. Samkvæmt tilkynningunni náðu Baldur og Aðalsteinn þeim árangri að vera með besta tímann á hverri einustu sérleið í keppninni sem er afar sjaldgæft að gerist í rallý.

Í þriðja sæti í keppninni urðu svo Gunnar Karl og Ásta Valdís á Mitsubishi Lancer Evo VI sem er frábær árangur, en Gunnar Karl er aðeins 18 ára.

Í jeppaflokki sigruðu Hörður Darri og Sigríður Anna á Tomcat eftir mikla baráttu en afföll í jeppaflokknum voru mjög mikil. Í flokki aflminni bifreiða sigruðu Guðmundur og Ólafur eftir mikla baráttu við m.a. Baldur Arnar og Hönnu Rún en Baldur hafði fyrir keppnina þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í þessum flokki.

„Eins og áður sagði var þetta síðasta umferðin í Íslandsmótinu í rallý þetta árið en stefnt er að a.m.k. einni stuttri keppni, svokölluðu sprettrallý, áður en menn setja bíla sína inn í skúr og hefjast handa við að útbúa þá fyrir næsta keppnistímabil sem hefst í maí 2015,“ segir loks í tilkynningunni.

Fleiri fréttir