Íslenska gæðingakeppnin – þróunin fram til dagsins í dag :: Sögusetur íslenska hestsins

Hlynur frá Akureyri, sigurvegari í B-flokki gæðinga á landsmótinu 1978. Knapi: Eyjólfur Ísólfsson, síðar yfirreiðkennari Hólaskóla um árabil. Þeir sigruðu einnig töltkeppni landsmótsins með hæstu einkunn sem gefin hafði verið. Hesturinn fór jafnframt í kynbótadóm sem geldingur og afkv. föður síns Sörla 653 frá Sauðárkróki og var áberandi í heiðursverðlaunasýningu hans á mótinu þar sem Sörli hlaut Sleipnisbikarinn. Mynd úr safni SÍH, ljm. Kristján Einarsson.
Hlynur frá Akureyri, sigurvegari í B-flokki gæðinga á landsmótinu 1978. Knapi: Eyjólfur Ísólfsson, síðar yfirreiðkennari Hólaskóla um árabil. Þeir sigruðu einnig töltkeppni landsmótsins með hæstu einkunn sem gefin hafði verið. Hesturinn fór jafnframt í kynbótadóm sem geldingur og afkv. föður síns Sörla 653 frá Sauðárkróki og var áberandi í heiðursverðlaunasýningu hans á mótinu þar sem Sörli hlaut Sleipnisbikarinn. Mynd úr safni SÍH, ljm. Kristján Einarsson.

Lesendur góðir, í þessari grein verður botninn sleginn í umfjöllunina um íslensku gæðingakeppnina. Tekið verður hlé á skrifum í sumar en haldið áfram í haust og í fyrsta tölublaði september verður hafin umfjöllun um íþróttakeppnina.

Á landsmótinu 1970 var tónninn á margan hátt sleginn, hvað þróun gæðingakeppninnar varðaði, allt fram til dagsins í dag, þó mikið vatn ætti eftir til sjávar að renna hvað þau mál öll varðar. Þá var tekið upp það kerfi hvað fjölda hrossa á mótið varðar að kvóti hvers félags tæki mið af fjölda félagsmanna. Þannig festist í sessi, og hefur viðhaldist æ síðan, sú grunnhugsun gæðingakeppninnar, að hestamannafélögin sjálf séu ábyrg fyrir vali sinna þátttakenda og jafnframt haldist hvað yngri flokka afsprengi gæðingakeppninnar varðar. Þá var á mótinu 1970, í fyrsta sinn, keppt í tveimur aðgreindum flokkum góðhesta: Flokki alhliða gæðinga (A-flokki) og í flokki klárhesta með tölti (B-flokki).

Í A-flokki er keppt um gæðingabikar LH, gefinn af Birni Gunnlaugssyni, fyrst veittur á Hólum 1966. En í B-flokki er keppt um Háfetabikarinn sem landbúnaðarráðuneytið gaf þegar keppnin í B-flokki hófst 1970. Loks var á mótinu ´70 kynntur fyrsti vísir að sjálfstæðum vinnubrögðum hvers dómara fyrir sig; þannig var tilskilið að hver dómari skyldi frumdæma hvern hest og færa dóm sinn á dómblað sem svo skyldu samræmd. Enn þá voru það einvörðungu geltir reiðhestar sem tóku þátt í góðhestakeppninni, nokkuð það sem aldeilis hefur tekið breytingum.

Á þessum tíma var þó tekið að opna á þátttöku hryssna og stóðhesta, skv. áður tilvitnaðri reglugerð, en þá aðeins á mótum þar sem ekki væru kynbótasýningar. Var þá enn byggt á þeirri hugsun að kynbótasýningarnar og gæðingakeppnin væru tvær hliðar á sama peningi sem hvoru tveggja hefði þann tilgang að leggja mat á gæði íslenska hrossastofnsins.

Spjaldadómar halda innreið sína
Sá vísir að sjálfstæði við dómstörfin sem birtist í þeirri reglu sem var praktiseruð á landsmótinu 1970, að hver dómari gæfi einkunn sér sem væru svo aftur samræmdar í eina lokaeinkunn, var þróuð áfram næstu árin. Árið 1973 var svo fyrsta formlega námskeiðið í gæðingadómum haldið, skv. nýrri útfærslu keppninnar (spjaldadómar). Áður hafði einu sinni verið haldið námskeið (1966) eftir gamla forminu. Spjaldadómar er sem sagt dómsfyrirkomulagið eins og það er nú alkunna í gæðinga- (og íþróttakeppnum); hver dómari fyrir sig vinnur sjálfstætt, oftast þó með ritara sér við hlið og gefur einkunn, ýmist heildareinkunn í formi meðaltals eða einkunn fyrir hvert einstakt dómsatriði.

Fyrri hátturinn er venjulegast hafður á í forkeppni og milliriðlum en hinn í úrslitum. Nafnið spjaldadómar er svo einfaldlega dregið af því að einkunnin var kunngjörð með að rétta upp spjöld. Á síðustu árum, á tímum tölvutækni og rafrænna samskipta, eru spjöldin horfin, nema þá til vara ef bilanir koma upp, en aðferðin sú sama.

Vissulega ýttu erlend áhrif þarna undir, spjaldadómar voru til að mynda viðhafðir á fyrsta Evrópumótinu sem haldið var á búgarði Felmann-feðga í Aegidienberg við Rín árið 1970. Hinn hefðbundni 250 m hringvöllur, sem íþróttakeppnin fer fram á, er jafnvel álitið að skýrist af því að ekki varð stærri velli komið fyrir á keppnisstaðnum. Við uppbyggingu vallarmannvirkja hér á landi á þessum tíma urðu hringvellir æ algengari. Hvað gæðingakeppnina áhrærir varð löglegur gæðingakeppnisvöllur 300 m hringvöllur með aðgengi að beinni braut – kappreiðabraut – til að sýna skeið í keppni alhliða gæðinga.

Hvað hringvelli varðar er þó alls ekki hægt að segja að þeir hafi alfarið komið til fyrir erlend áhrif, vissulega kom 250 m völlurinn þannig til en útfærsla 300 m gæðingavallarins er séríslensk og á gömlum mótsvæðum voru mjög stórir hringvellir, þeir nýttust sem hlaupabrautir í langhlaupum, við útfærslu hópreiða á stórmótum og við hópsýningar ræktunarhrossa.

Breytingin sem varð á dómstörfunum við tilkomu spjaldadómanna var djúpstæðari en bara það að farið væri að vinna fyrir opnum tjöldum eða eins og segir í greininni „Starfsreglur fyrir gæðingadómara LH“ sem birtist í Hestinum okkar 3. tbl., 14. árg. 1973, á bls. 109 til 112, þar sem á síðum 110 til 112 er fyrsti vísir að leiðara, þ.e. stigunarkvarða fyrir gæðingadóminn: „Þessi breyting er gerð til að mæta nýjum viðhorfum og kröfum áhorfenda um að geta fylgzt betur með störfum dómaranna en verið hafði, svo og að hestarnir hlytu dóm sinn fyrir það, sem dómarar þóttust geta spáð í, en ekki kom fram í keppninni sjálfri.

Með öðrum orðum sagt, var nú verið að gera gæðingakeppnina að keppni, afmarkaðri keppni tiltekins dags eða stundar, í stað þess, að áður var sjónarmiðið fremur leit að eðlisbezta hestinum.“ Ekki er höfundar greinarinnar getið, en fara má nærri um að hann sé Sigurður Haraldsson í Kirkjubæ (1919-1998) hann var áhrifamikill í málefnum gæðingakeppninnar á þessum árum og lengi síðan, enda listrænn fagurkeri á sviði hestamennskunnar, vel máli farinn og ritfær.

Hvorki er hér rúm til né ástæða að rekja hvert landsmótið fyrir sig, s.s. hverjir skipuðu dómnefndir eða hvaða hestar unnu hverju sinni. Enn um skeið var keppnin eingöngu keppni geltra reiðhesta en á landsmótinu 1978 brá fyrst fyrir að hryssur væru meðal keppnishrossa. Deilur voru hins vegar uppi um raunverulegan þátttökurétt stóðhesta í keppninni, þær voru til lykta leiddar fyrir landsmótið 1994 og þá varð hreinlega sprenging hvað þátttöku þeirra varðar og hafa þeir verið allt að því yfirgnæfandi í keppninni á landsmótum allar götur síðan.

Yngri flokka afsprengi gæðingakeppninnar (B-flokksins) eru keppnisflokkar barna, unglinga og ungmenna. Fyrst hófst keppni í yngri flokkunum á landsmótinu á Skógarhólum árið 1978, talað var þar um unglingakeppni 10 – 12 ára og unglingakeppni 13 – 15 ára. Nöfnum aldursflokkanna var svo breytt fyrir landsmótið 1994 og farið að tala um börn og unglinga í þessu sambandi og ungmennaflokkur bættist svo við á landsmótinu 1998. Einhverjar breytingar hafa orðið innbyrðis í aldursflokkauppgreiningunni á seinni árum sem ekki verður tíundað hér en þessir aldursflokkar í heild sinni ná yfir aldursárin 10 til 21 árs.

Núna á seinni árum hafa verið gerðar tilraunir til að fá alþjóðlega útbreiðslu á íslensku gæðingakeppnina, án afgerandi árangurs því miður. Eflaust þarf að ganga róttækar fram í því máli ef árangur á að nást sem ekki verður rætt nánar hér. Jafnframt hefur þátttaka í gæðingakeppni hestamannafélaganna snardaprast, því miður, nema þá helst á landsmótsárum. Þegar kynbótahross mæta til keppni jafnhliða úrtökum. 

Kristinn Hugason

Áður birst í 22. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir