Ístað Angelu
Angela Berthold, sjúkraþjálfari og bóndi í Efri-Lækjardal í A- Húnavatnssýslu, fer í göngur eins og aðrir bændur. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema það að fyrir nokkrum árum lenti hún í smá óhappi sem tók óvænt enda nú um síðustu helgi.
Það var fyrir átta árum að Angela var í göngum ásamt öðrum bændum og skildu þau hesta sína eftir í sömu lautinni og venjulega þegar þarf að smala gangandi þar sem ekki er hestfæri. Nágrannar þeirra í göngum taka svo hestana með sér, en í þetta sinn vildi svo til að hestarnir lögðu sjálfir af stað til gangnamanna. Hestur Angelu hafði velt sér með hnakkinn og eitthvað skemmt hann. Þegar Angela tekur svo við hesti sínum vantar annað ístaðið sem var sérsmíðað með upphafsstöfunum hennar , AB. Reið hún því ístaðslaus til byggða. Síðan þá hefur Angela gefið því auga í göngum hvort ístaðið finnist en árangurslaust. Það var svo í síðustu göngum að Hilmar Frímannsson var í Laxárdalnum átta árum síðar og fann ístaðið góða og kom því í hendur á undrandi eigandanum. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar Hilmar færir Angelu ístaðið.
