Íþróttakeppnir og skóluð reiðmennska ryðja sér til rúms - Kristinn Hugason skrifar
Stundum er komist svo að orði, að allt sem fari upp komi niður aftur, í ríki náttúrunnar er þetta vitaskuld staðreynd og helgast einfaldlega af þyngdaraflinu sem er náttúrulögmál. Yfir hinu má frekar velta vöngum, sem er hvort allt sem fari niður komi upp aftur – það er mikil spurning. Telja má þó líklegra en ekki að svo sé, haldi það sem um ræðir lífi yfir höfuð. Framvindan sé þannig í formi boglínuferils frekar en línulegs.
Þannig var það einmitt 1970 eins og fjallað hefur verið um, að hestamennskan sem leitast hafði verið við að glæða auknu lífi við gerbreyttar þjóðfélagsaðstæður var komin í visst þrot; lægsta punkt má segja sé líkingin við boglínuna notuð áfram. Þá vaknaði nýr frjóangi, á landsmótinu það ár var forkeppni fyrir fyrsta Evrópumótið haldin, sem fór svo fram þá um haustið úti í Rínarlöndum, FT var stofnað og ungt fólk þess tíma fór að líta til nýrra þátta innan hestamennskunnar en með sér við hlið fullorðnar, jafnvel aldnar kempur sem stóðu traustum fótum í þjóðararfi hestamennskunnar.
Strax árið á eftir bar svo eitt og annað til tíðinda sem spor markaði, frá því segir m.a. í 1. tbl., 12. árg. Hestsins okkar árið 1971, á bls. 2-14 í greininni „Reiðskóli L.H. og Fáks“, höfundur merkir greinina með upphafsstöfunum H.G. sem er næsta víst sr. Halldór Gunnarsson sóknarprestur í Holti undir Eyjafjöllum sem þá var nýtekinn við ritstjórn blaðsins af öðrum presti, sr. Guðmundi Óla Ólafssyni í Skálholti (1927-2007). Hesturinn okkar, tímarit Landssambands hestamannafélaga, hafði þá komið út frá árinu 1960, fyrsti ritstjóri þess var Vignir Guðmundsson (1926-1974) blaðamaður á Morgunblaðinu og ritstýrði hann fyrstu þremur árgöngunum en þá tók sr. Guðmundur Óli við.
Í grein Halldórs segir frá hinni rómuðu heimsókn Feldmann feðga og reiðnámskeiðinu sem haldið var í Fáki í Víðidal en þá hafði verið komið upp þar einu af alfyrstu tamningagerðunum á landinu í stærðinni 20x40 m en fyrsta gerðið af þessari stærð, sem oft var kölluð lögleg stærð, var sett upp hjá reiðskólanum í Vestra-Geldingaholti árið 1964. Formaður Fáks á þessum merku tímamótum var Sveinbjörn Dagfinnsson (1927-2018) og beitti hann sér fyrir hvoru tveggja, byggingu reiðgerðisins og námskeiðshaldinu.
Meðal þátttakenda á námskeiðinu var sá kunni hestamaður Bogi Eggertsson (1906-1987) sem ritað hafði kennslubókina Á Fáki ásamt Gunnari Bjarnasyni og var gefin út af Landssambandi hestamannafélaga 1953, um námskeið þeirra Feldmann feðga sagði hann m.a. þetta aðspurður um hvað væri þarna að eiga sér stað: „Það sem koma skal. Nákvæmlega það og ekkert annað. Menn, sem kunna sitt fag, eru að reyna að kenna okkur rétta reiðmennsku, sem við höfum ekkert þekkt fram til þessa.“ (HO, 1. tbl., 13. árg., bls. 11). Í sama tölublaði Hestsins okkar birtist greinin „Undirstaða reiðmennskunnar“ eftir Ragnheiði Sigurgrímsdóttur (1933-2017) en hún hafði m.a. aflað sér menntunar í reiðmennsku í Þýskalandi, Ragnheiður tók þátt í stofnun FT og var formaður félagsins 1972 til 1978 og svo aftur frá 1984 til 1986.
Greinin sem hér um ræðir var hluti af formála rits um grundvallaratriði hlýðniæfinga sem Ragnheiður tók saman og FT gaf út. Þá var og í sama tölublaði grein sem Sveinbjörn Dagfinnsson og Ragnheiður Sigurgrímsdóttir þýddu úr þýsku og nefndist „Eðli og tilgangur þjálfunar í tamningagerði“. Þarna var fram komið efni sem var notað afar mikið á námskeiðum næstu árin en sá mikilvægi skilningur var að skapast að hestamennsku mætti læra, væri áhugi til staðar en væri ekki þær launhelgar sem aðeins lægju opnar fáeinum útvöldum.
Íþróttakeppnir fyrstu árin
Næsta ár, 1972, var svo fyrsta próf FT haldið sem markaði upphaf áratugaferils um hvernig inntöku í félagið var háttað sem varð mjög í samspili við þróun íþróttakeppninnar, ekki síst hlýðnikeppnina. Annað Evrópumeistaramótið fór svo fram í St. Moritz í Sviss það sama ár, íslenska keppnissveitin var valin í sérstakri úrtökukeppni sem fram fór samhliða fjórðungsmótinu á Hellu þá um sumarið. Í yfirlitsgrein um Evrópumótin og þátttöku Íslendinga í bókinni Hestar- og menn 1987, höfundar Guðmundur Jónsson og Þorgeir Guðlaugsson, útgefandi Skjaldborg 1987, segir svo um mótið í St. Moritz: „Í hugum margra mun nokkur skuggi hvíla yfir þessu móti. Mörg vandamál komu upp og stundum vantaði upp á skipulagið væri sem best.“ (Bls. 200 í tilv. riti). Ekki vantaði þó neitt upp á náttúrufegurðina en þessum svissneska fjallabæ sem er í 1800 m hæð yfir sjávarmáli. Útkoma Íslendinga var léleg á mótinu, höfnuðu í fimmta sæti í stigakeppninni en þátttökuþjóðir voru sex.
Næsta Evrópumót fór fram að þremur árum liðnum, árið 1975 og voru Evrópumótin þar með komin á oddatöluár sem þau hafa verið allar götur síðan, það mót fór líka fram í Mið-Evrópu eða í smáþorpinu Semriach í suðurhluta Austurríkis, ekki langt frá landamærum Júgóslavíu. Íslenska liðið var valið í sérstakri forkeppni sem fram fór á Kjóavöllum í Garðabæ. Útkoman á mótinu var mikið betri en á mótinu á undan; þátttökuþjóðum hafði og fjölgað, voru nú átta en Frakkar og Norðmenn höfðu bæst við. Ekki var stigakeppni á milli þjóðanna en fullvíst er að Íslendingar hefðu hafnað ofarlega hefði svo verið gert. Reynir Aðalsteinsson (1944-2012) sigraði í tölti á Degi frá Núpum en á mótinu á undan, í St. Moritz, féll Dagur úr keppni vegna veikinda en ýmsir hestanna þar þoldu illa hið súrefnisþunna háfjallaloft, fleiri íslenskir knapar auk Reynis náðu góðum árangri á téðu móti.
Niðurlagsorð
Áður en Evrópumótið í Semriach 1975 fór fram var landsmótið haldið á Vindheimamelum árið 1974, það landsmót heppnaðist mjög vel, þó að ekki sæjust þar nein áhrif af íþróttakeppnunum enn þá. Keppnisgreinar Evrópumótanna voru enda í mótunarferli og á næsta móti, því fyrsta sem haldið var í Skandinavíu, í Skivern á Norður Jótlandi. „Nú var tignarlegum fjöllum Alpanna ekki fyrir að fara en þrátt fyrir það stóð mótssvæðið fyrir sínu,“ eins og sagði á bls. 201 í áður tilvitnaðri heimild. Þetta varð þó fjölmennasta Evrópumótið hingað til, enda er náttúrufegurð m.t.t. vals á mótsvæðum aukaatriði. Gestum á Evrópumótunum var nú tekið að fjölga; 4000 gestir sóttu mótið; einnig fjölgaði þátttökuþjóðum um tvær til viðbótar en Belgía og Svíþjóð bættust í hópinn og voru þar með orðnar tíu talsins. Keppnisgreinarnar voru að auki farnar að færast mjög í núverandi horf. Úrtökukeppni fyrir mótið hér heima fór fram í Víðidal í Reykjavík og náði keppnissveit Íslands góðum árangri þegar út var komið.
Í næstu grein verður enn haldið áfram þar sem frá er horfið í þessari heillandi sögu. Nú eru hins vegar tímamót í augsýn, árið 2020, sem fáir koma líklega til með að sakna, hverfur brátt í aldanna skaut. Framundan er jólahátíðin, óska ég öllum sannrar gleði, árs og friðar.
Kristinn Hugason
Áður birst í 46. tbl. Feykis 2020.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.