Jafntefli á lokamínútunum
Jafntefli varð á Sauðárkróksvelli í hörkuspennandi leik Tindastóls gegn Þrótti R í 1. deild karla sl. föstudag. Úrslitin urðu sérlega svekkjandi fyrir lið Tindastóls þar sem þeir voru yfir allan leikinn en á lokamínútum leiksins, í viðbótartíma, náði leikmaður Þróttar að koma inn marki.
Það var Loftur Páll Eiríksson leikmaður Tindastóls sem skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu en Tindastóll átti einnig annað mark leiksins þegar Mark Charles Magee kom boltanum í markið á 25. mínútu.
Á 45. mínútu, rétt áður en flautað var til hálfleiks, náði Ragnar Pétursson að skora fyrir Þrótt og var staðan í hálfleik því 2-1 Tindastól í vil. Reiðarslagið kom svo í viðbótartíma þegar Karl Brynjar Björnsson jafnaði fyrir lið Þróttar á 93. mínútu. Lokastaða 2-2.
Mönnum var heitt í hamsi í þessum hörkuspennandi leik og þurfti dómari leiksins að veita nokkrar áminningar og vísa einu sinni af velli. Fimm leikmenn Tindastóls fengu gula spjaldið, þeir Mark Charles Magee, Loftur Páll Eiríksson, Rodrigo Morin, Björn Anton Guðmundsson og Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson en hinn síðastnefndi fékk einnig rauða spjaldið á 95. mínútu og var gert að yfirgefa völlinn. Í liði Þróttar fengu þrír leikmenn áminningu, þeir Karl Brynjar Björnsson, Alexander Veigar Þórarinsson og Matthew Eliason.
Eftir leikinn situr lið Tindastóls neðst í deildinni með 3 stig en Þróttur R í því 4. með 14 stig.