Jaka Brodnik kveður Krókinn

Jaka Brodnik. Mynd: Hjalti Árna
Jaka Brodnik. Mynd: Hjalti Árna

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur greindi frá því í gær  að búið væri að semja við Jaka Brodnik um að leika með liði Keflavíkur næstu tvö tímabil. Jaka hefur leikið með liði Tindastóls undanfarin tvö ár við góðan orðstír en hann kom til liðsins frá Þór Þorlákshöfn  samhliða Baldri Þór Ragnarssyni, þjálfara Stólanna fyrir tímabilið 2019-2020 en þeir höfðu starfað saman hjá Þór Þorlákshöfn tímabilið á undan og slógu lið Tindastóls grátlega úr leik í 8-liða úrslitum í úrslitakeppni Dominos deildarinnar 2019.

Jaka Brodnik hefur verið lykilleikmaður í liði Tindastóls og komið vel fyrir bæði innan vallar og utan á Sauðárkróki, hans verður því sárt saknað. 
Hann var með 14.4 stig og 6 fráköst að meðaltali í deildarkeppninni í vetur og 18 stig og 6.7 fráköst í seríunni á móti Keflavík í úrslitakeppninni þar sem að Tindastóli var sópað. 
Jaka skrifaði undir tveggja ára samning við körfuknattleiksdeild Tindastóls í janúar í fyrra og átti hann því eitt ár eftir af samningi sínum hér á Króknum. 

„Hann notfærði sér glugga í samningi, hálfum mánuði eftir að keppnistímabili lýkur mátti hann standa í viðræðum við annað félag en til þess þurfti hann að slíta samningi formlega við Tindastól á þessum hálfa mánuði, sem hann og gerði,“ Segir Ingólfur Jón Geirsson formaður körfuknattleiksdeild Tindastóls í samtali við Feyki.

Ingólfur segir að það sé sennilega ekki von á tilkynningum um nýja leikmenn í herbúðum Tindastóls á næstunni en hann útilokar það samt ekki.

„Nei ætli við tökum því ekki bara rólega, og þó, maður veit aldrei, þetta getur gerst hratt í þessum bransa.“

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir