Sterkur kjarni heimamanna skrifar undir til næstu tveggja ára hjá körfuknattleiksdeild Tindastól

Hinn þétti kjarni heimamanna sem skrifað hefur undir samning við körfuknattleiksdeild Tindastóls til æstu tveggja ára ásamt formanni deildarinnar. Mynd: PF.
Hinn þétti kjarni heimamanna sem skrifað hefur undir samning við körfuknattleiksdeild Tindastóls til æstu tveggja ára ásamt formanni deildarinnar. Mynd: PF.

Í dag tilkynnti körfuknattleiksdeild Tindastóls að samningar hafi verið undirritaðir við góðan kjarna heimamanna til næstu tveggja ára. Þetta er í samræmi við þá uppbyggingu á liðinu sem til kom með þriggja ára ráðningu Baldurs Þórs Ragnarssonar síðastliðið vor. „Við höfum mikla trú á því að til að ná árangri í körfubolta þurfum við góðan kjarna heimamanna með skynsömum viðbótum,“ sagði Ingólfur Jón Geirsson, formaður deildarinnar á blaðamannafundi í húsakynnum sýndarveruleika 1238 í dag.

„Við lítum björtum augum til framtíðar og ætlum að halda okkur í baráttu þeirra allra bestu áfram eins og við höfum gert hingað til. Lögðum við í vegferð í haust og vetur til að styrkja kjarnann okkar, afrakstur þeirrar vinnu hefur gengið mjög vel þó við séum ekki endilega búin. Nú er kominn tími til að staldra við og hugsa um þá þéttu dagskrá sem bíður okkar bæði í deild og bikar,“ sagði Ingólfur og kynnti þann kjarna sem framlengt hefur samninga sína til jafns við þjálfarann, Baldur Þór Ragnarsson, við körfuknattleiksdeildina. Þetta eru þeir Axel Kárason, Hannes Ingi Másson, Helgi Rafn Viggósson, Jaka Brodnik, Pétur Rúnar Birgisson, Viðar Ágústsson og Jan Bezica aðstoðarþjálfari.

„Við lítum þannig á að til þess að vera samkeppnishæfir í þessum bransa sem körfuboltinn er í dag þurfum við sterkan kjarna heimamanna. Að geta unnið út frá þeirri kjarnamyndun er gott fyrir leikmenn að vita að hverju þeir ganga haustinu eftir. Það er ákveðinn kjarni sem spilar saman og gengur betur því lengur sem þeir spila saman. Að fá Jaka Brodnik inn í þennan hóp er snilld. Svo koma alltaf viðbætur að utan en þá getum við alltaf púslað utan um þann kjarna sem við höfum,“ segir Ingólfur Jón.

„Þetta er forsenda fyrir því að við séum í þessu, við þurfum á þessum kjarna leikmanna að halda og það þarf að byggja upp sem gerist ekki allt á einu tímabili. Þannig að það er mjög sterkt að halda atvinnumönum eins og Jaka lengur og náttúrulega leikmanni eins og Pétri Rúnari sem hefur verið að banka á landsliðsdyr. Það er mjög sterkt að halda þessum mönnum næstu tvö tímabil. Það þarf oft að horfa í hvað langtíminn gerir frekar en bara eitt tímabil. Maður vill byggja upp á löngum tíma og búa til sterkt lið. Auðvitað er mikilvægt að halda þessum mönnum, ég setti mikla áherslu á það, meðan ég væri hér þá væru þeir hér,“ sagði Baldur Þór þjálfari í samtali við Feyki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir