Jarðvegssýni tekin á Hofsósi í síðustu viku

Bjarni Helgi Ragnarsson, starfsmaður þjónustumiðstöðvar Svf. Skagafjarðar, og Baldvin Jónbjarnarson, jarðeðlisfræðingur hjá Eflu Verkfræðistofu, við sýnatöku. Mynd:FE
Bjarni Helgi Ragnarsson, starfsmaður þjónustumiðstöðvar Svf. Skagafjarðar, og Baldvin Jónbjarnarson, jarðeðlisfræðingur hjá Eflu Verkfræðistofu, við sýnatöku. Mynd:FE

Starfsmaður Verkfræðistofunnar Eflu, ásamt starfsmanni Sveitarfélagsins Skagafjarðar, unnu að því í síðustu viku að taka sýni úr jarðvegi á svæði umhverfis bensínstöð N1 á Hofsósi þar bensínleki uppgötvaðist síðla árs 2019. Skipt var um tanka og jarðveg umhverfis þá síðasta sumar.

Sveitarfélagið Skagafjörður réð Verkfræðistofnuna Eflu til að annast rannsóknir á frekari umfangi mengunarinnar og var fyrirhugað að hefja rannsóknir í haust. Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, sagði í samtali við Feyki að búið hefði verið að ákveða tíma fyrir rannsóknirnar þegar þriðja bylgja COVID-19 skall á og því hafi þurft að seinka framkvæmdum.

Steinn segir að nú sé búið að taka sýni í samræmi við rannsóknaráætlun sem gerð var í samstarfi við Eflu til að kanna útbreiðslu mengunar á svæðinu en boraðar voru 13 holur, 3-4 metra djúpar, til sýnatökunnar. „Við erum sem sagt búin að ná þessum sýnum en svo á eftir að fara yfir þau frekar og verður eitthvað af þeim sent utan til rannsóknar. Ég á svo von á skýrslu um máið einhvern tímann á næstunni, það er ekki alveg komin dagsetning á það en ég geri ráð fyrir að það verði á næstu vikum,“ segir Steinn.

Aðspurður segir Steinn að framhaldið fari svo algjörlega eftir niðurstöðum rannsóknarinnar og að engin leið sé að segja til um það að svo stöddu.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir