Jólamarkaður á Hvammstanga
Jólamarkaður verður haldinn í félagsheimilinu Hvammstanga laugardaginn 27. og sunnudaginn 28. nóvember nk. og verður opið frá kl. 14:00-17:30 báða dagana. Kveikt verður á jólatrénu við félagsheimilið kl 16:30 á laugardag og hafa Jólasveinar boðað komu sína á svæðið.
Þetta er fjórða árið sem jólamarkaðurinn er haldinn og hefur umfangið vaxið með hverju árinu. Aldrei hafa fleiri pantað sér borð en nú og er fjölbreytni í vöruúrvali að sama skapi mikil. Má þar nefna handverk af ýmsum toga, skartgripir, matvara, bækur, leikföng og margt fleira.
Að venju verður veitingasala á staðnum og er hún á vegum 10. bekkjar Grunnskóla Húnaþings vestra.
Ýmis tónlistaratriði verða á sviðinu og munu söngdívur svæðisins láta í sér heyra.